Sergei Khadzhikurbanov, fyrrverandi lögreglumaður í Moskvu, var dæmdur í 20 ára fangelsi árið 2014. Nú segir lögmaður hans, Alexei Mikhalchik, hann hins vegar hafa verið náðaðan af forseta Rússlands fyrir að hafa lokið sex mánaða samningi um að berjast í Úkraínu.

Politkovskaya var rannsóknarblaðamaður og mjög gagnrýnin á framgöngu Rússa í Tjétjéníu. Hún öðlaðist alþjóðlega frægð fyrir rannsóknir sínar en skapaði sér óvinsældir heima fyrir með óvægri umfjöllun um Vladimír Pútín, sem þá hafði verið endurkjörinn forseti í fyrsta sinn, og leiðtoga Tjétjéníu.
Blaðakonan var skotin til bana í lyftu í fjölbýlishúsinu þar sem hún bjó.
Khadzhikurbanov var fundinn sekur um að hafa aðstoðað við morðið. Alls voru fimm dæmdir og hlaut Rustam Makhmudov lífstíðarfangelsi fyrir að gaka í gikkinn. Frændi hans, Lom-Ali Gaitukayev, var einnig dæmdur í lífstíðarfangelsi.
Enn er á huldu hver fyrirskipaði morðið.
Að sögn Mikhalchik var skjólstæðingi hans boðið að skrifa undir samning um þátttöku í „hinni sérstöku hernaðaraðgerð“, eins og Rússar hafa kallað innrásina í Úkraínu. Eftir að hafa uppfyllt skilmála samningsins hafi hann síðan verið náðaður.
Upphaflega var það Wagner-hópur Yevgeny Prigozhin sem hóf að fá fanga í Rússlandi til að taka þátt í innrásinni en eftir að hópurinn leystist upp í kjölfar dauða Prigozhin hefur rússneski herinn tekið upp á hinu sama.