„Hugur minn er allur hjá fólkinu mínu í Grindavík. Ég reyni bara að standa með því. Sjálfum líður mér ekki illa en þetta er ofboðslegt áfall fyrir sveitarfélagið, íbúa þess og við reynum bara að standa saman um það að gera það besta úr hlutunum,“ segir Fannar í samtali við fréttastofu.
Fram kom á upplýsingafundum almannavarna að miklar líkur væru á eldgosi. Kvikugangur undir Grindavík væri stærri en áður hefði sést í jarðhræringum á Reykjanesi. Grindvíkingar munu ekki fá að fara heim á næstu dögum.
Hann segir kerfið hafa virkað gríðarlega vel. Það hafi verið magnað að fylgjast með almannavörnum og vísindamönnum að störfum. Það hafi sýnt sig í nótt að Grindvíkingar eru í góðum höndum. Enginn hafi neitað að yfirgefa heimili sitt í gær.
Hvernig er hljóðið í Grindvíkingum?
„Ég hef nú ekki náð að tala við marga en mér heyrist svona að fólk sé ótrúlega æðrulaust í þessari stöðu og rýmingin gekk vel og það verður húsaskjól fyrir alla og það verður haldið áfram að gera eins og hægt er til þess að koma til aðstoðar,“ segir Fannar.
„Við erum til dæmis að vinna að því að það verði svona kyrrðar-og friðarstund núna um helgina, þannig að fólk geti hist og við reynum að hlúa að börnunum, það tókst mjög vel til í því að flytja sjúka og aldraða í burtu samkvæmt rýmingaráætlunum. Það tókst afskaplega vel. Síðan er auðvitað andlega hliðin sem við þurfum að reyna einhvern veginn að takast á við með okkar fólki.“
Þið hafið fengið mikinn stuðning frá nærsveitungum og fólki á höfuðborgarsvæðinu. Ertu hrærður yfir stuðningnum?
„Já. Við náttúrulega höfum gengið í gegnum þrjú eldgos og vitum alveg hversu mikilvæg öll þessi aðstoð er. Það getur ekkert sveitarfélag og ekki af þeirri stærðargráðu sem Grindavík er gert neina hluti sem skipta máli í svona stóru verkefni nema að fá alla þessa aðstoð. Allstaðar að á landinu, lögregluembættin, björgunarsveitirnar, vísindamennirnir, Rauði krossinn og svo framvegis. Þetta er ofboðslega flott net, það eru mörghundruð manns sem koma að þessu, bara hér í Skógarhlíð eru tugir manns og allt baklandið er miklu öflugra en ég vissi áður en ég fór að koma að þessum málum á sínum tíma.“