Manchester United kom sér aftur á sigurbraut þegar liðið lagði Luton að velli 1-0 í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Victor Lindelöf skoraði eina mark leiksins í seinni hálfleik.
Manchester United fengu heilan haug af færum í fyrri hálfleiknum sem þeim tókst ekki að nýta. Bæði Alejandro Garnacho og Rasmus Højlund misnotuðu marktækifæri sín illa og sá fyrrnefndi fékk að heyra baul frá stuðningsmönnum þegar hann var tekinn af velli í seinni hálfleik.
Victor Lindelöf braut loks ísinn fyrir Manchester United á 59. mínútu með marki sem kom upp úr hornspyrnu. Varnarmaður komst fyrir skot Scott McTominay en boltinn datt þá fyrir Lindelöf sem kom honum yfir línuna.
Man Utd take the lead against Luton!
— Premier League (@premierleague) November 11, 2023
The ball falls kindly to the feet of Victor Lindelof following a corner, and the defender lashes home to put the hosts ahead 🎯#MUNLUT pic.twitter.com/cmsYqmh37n
Luton gerðu skiptingar í kjölfarið og góða atlögu að jöfnunarmarkinu en tókst það ekki í þetta sinn.
Christian Eriksen fór meiddur af velli í fyrri hálfleik, samlandi hans Rasmus Højlund meiddist svo undir lok leiks og var einnig tekinn af velli.
Højlund hafði átt góðan leik fram að því og komst hársbreidd frá sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki en biðin lengist enn fyrir Danann. Meiðslavandræði Manchester liðsins virðast engan endi ætla að taka en stuðningsmenn félagsins geta huggað sig við stigin þrjú í dag.