Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá landfestar leystar eftir breytingar og endurbætur í Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði. Baldur var að leggja upp í reynslusiglingu út á Faxaflóa, væntanlega þá síðustu áður en nýja Breiðafjarðarferjan verður tekin í notkun.

Til stóð að það yrði í lok októbermánaðar en Vegagerðin segir vætutíð hafa seinkað allri vinnu við málun og þar með verkinu í heild. Meðal breytinga var að komið var upp þilfarskrana og geymslusvæði á þilfari til að auðvelda vöruflutninga út í Flatey.
Skipstjórinn Matthías Arnar Þorgrímsson sigldi með skipinu frá Noregi, þaðan sem það var keypt notað.
„Við fyrstu prófanir þá reynist það mjög vel. Mjög gott að stjórna því og það lætur vel og fer vel með farþega,“ segir Matthías.
Skipið, sem áður hét Röst, var smíðað í Noregi árið 1991. Það er 66 metrar á lengd og 13,4 metrar á breidd. Fyrri ferja hafði aðeins eina aðalvél en þessi er búin tveimur, sem stóreykur öryggi.

Farþegasalurinn er stór og bjartur en skipið tekur um 250 farþega. Því er spáð að útsýnisskáli á efsta þilfari verði vinsælt rými þegar siglt er innan um eyjarnar óteljandi á Breiðafirði.
„Svo er snyrtilegt og þú sérð vel út úr skipinu og skipið fer vel með þig, ég get vottað það. Þannig að ég hugsa að farþegar verði mjög ánægðir með það sem þeir sjá,“ segir skipstjórinn.
Bílaþilfarið rúmar fimm flutningabíla og 42 fólksbíla, örlítið færri en gamla ferjan.
„Gróflega áætlað fimm bílum færri og einum flutningabíl færri í einni ferð,“ segir Matthías.

Þessi ferja er þó hraðskreiðari.
„Við erum að horfa kannski á allt upp í tvær mílur á klukkustund hraðari.“
Sem þýðir að siglingatími gæti styst um 20 til 25 mínútur í hverri ferð.
„Miðað við fjórtán og hálfa til fimmtán mílu þá ættum við að vera um tvo tíma yfir fjörðinn,“ segir Matthías.
Stefnt er að því að Baldur sigli til heimahafnar í Stykkishólmi öðru hvoru megin við helgina og hefji svo áætlunarsiglingar á Breiðafirði í næstu viku. Vegagerðin hefur samið við Sæferðir, dótturfélag Eimskips, um rekstur Breiðafjarðarferjunnar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: