Haukur Páll hefur verið leikmaður Vals frá árinu 2010 en hann kom til félagsins frá Þrótti. Hann er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi og verið fyrirliði liðsins um árabil.
Í tilkynningu frá Val segir að það sé mikil ánægja að njóta krafta hans í nýju hlutverki.
Haukur Páll tekur við stöðunni af Sigurði Höskuldssyni, sem var aðstoðarþjálfari á síðustu leiktíð við hlið Arnars Grétarssonar þjálfara. Sigurður sagði starfi sínu lausu í október þegar hann tók við stjórnartaumunum hjá Þór á Akureyri.
Haukur Páll er einn af ástsælustu sonum Vals og þá var hann einnig valinn í lið áratugarins hjá Stöð 2 Sport í efstu deild karla í knattspyrnu 2010-2020. Viðtal við Hauk Pál frá þeim tímamótum má sjá hér fyrir neðan.