Lagið nefnist Now and then og kom út fyrr í dag. Þetta er að sögn eftirlifandi meðlima hljómsveitarinnar síðasta lag sveitarinnar og markar því tímamót á sextíu ára löngum ferli.
Síðasta lagið saman
Söngvari sveitarinnar, John Lennon samdi lagið skömmu áður en hann féll frá en með aðstoð gervigreindar tókst leikstjóranum Peter Jackson að einangra rödd Lennon á upptöku frá 8. áratugnum.
Lagið inniheldur meðal annars gítarleik sem George Harrison tók upp fyrir nær þremur áratugum síðan, trommuleik Ringo Starr, bassa Paul McCartney, píanóleik og gítareinleik í minningu George Harrison sem lést árið 2001.
Bakröddum úr lögunum Here, There and Everywhere, Eleanor Rigby, og Because var einnig blandað í nýjar bakraddirnar sem Paul McCartney og Ringo Starr syngja.
„Þetta er okkar síðasta lag saman“ lét Ringo Starr hafa eftir sér í viðtali við AP.
Lagið má heyra hér fyrir neðan.