Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að klukkan 13:00 hafi klukkustundargildi svifryks í mælistöð Faxaflóahafna við Laugarnes verið 138,2 míkrógrömm á rúmmetra, í mælistöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) við leikskólann Lund við Klepp hafi klukkustundargildið verið 58,7 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð HER við Vesturbæjarlaug hafi klukkustundargildið verið 76,6 míkrógrömm á rúmmetra.
Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
„Um er að ræða sandfok af hálendinu skv. upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Gildi svifryks eru há víðar á höfuðborgarsvæðinu og mælist HER til þess að börn og þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum ættu að forðast útivist ef þau finna fyrir óþægindum.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu,“ segir í tilkynningunni.