Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að jarðskjálftavirkni hafi verið nokkuð stöðug, en í gær mældust um 800 jarðskjálftar á svæðinu í kringum Þorbjörn. Sá stærsti var 3,7 að stærð klukkan 00:56. Frá miðnætti í dag hafa um 400 jarðskjálftar mælst á svæðinu, sá stærsti 2,8 að stærð rétt fyrir klukkan tíu í morgun.

„Minnt er á að gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar,“ segir í tilkynningunni.
Íbúafundur er fyrirhugaður í Grindavík klukkan fimm í dag með helstu sérfræðingum. Fundurinn verður í beinni útsendingu á Vísi.