Gervitunglagögn sýna og staðfesta að áframhaldandi þensla er norðvestan við Þorbjörn og Svartsengi er þenslan hröð. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að samfelldar GPS-mælingar sýni áframhaldandi merki um landris. Hraði þenslunnar hafi þó minnkað örlítið miðað við í upphafi, en fyrstu niðurstöður líkanreikninga bendi til að kvika sé að safnast fyrir á um fjögurra klómetra dýpi. Síðasta sólarhringinn hafa mælst um 1.300 jarðskjálftar á Reykjanesskaga og er meirihluti skjálftavirkninnar á um tveggja til fjögurra kílómetra dýpi.
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að þessi virkni, sem er á óheppilegum stað, hafi verið fyrirséð.
Ármann rýndi fyrst í stöðuna í viðtali í Morgunblaðinu í dag.
„Úr því að Reykjanesið er byrjað, Reykjanesskaginn, og alltaf þegar hann hefur byrjað þá fer hann allur hægt og rólega í gang en þetta er kannski hraðara heldur en við höfðum kannski vonað. Þetta er mjög hratt ferli og þessar síðustu fréttir í kringum Eldvarpakerfið þarna, það eru ekki nógu góðar fréttir því við erum með svolítið af innviðum þar sem við erum kannski ekki búin að klára að undirbúa mótvægisaðgerðir,“ segir Ármann.
Ekki góðar fréttir
Landris hefur mælst á þessu svæði í langan tíma en það hefur ýmist hægst á því eða það hætt alveg í einhvern tíma.
„Það segir okkur að það er töluvert af kviku sem hefur náð að safnast fyrir á þessu svæði og ef það segir okkur eitthvað þá ættu eldgosin þarna að verða aðeins kraftmeiri heldur en þau sem voru úti í Fagradalsfjalli þannig að það er í sjálfu sér ekki góðar fréttir heldur því þá bara rennur hraunið hraðar og þá hafa menn styttri tíma til að koma upp varnaraðgerðum.“
Svartsengi og Bláa lónið
Fólk sé heppið ef það fái sex eða sjö klukkustunda fyrirvara. Það sé vandamál því Bláa lónið er til að mynda nálægt.
„Svo kannski ennþá verra er Svartsengi og sú starfsemi sem þar er. Þar er náttúrulega framleidd raforka og heitt vatn og kalt vatn fyrir Suðurnesin, þannig að það væri vont ef eitthvað færi að skaðast í því þegar við erum að koma inn í veturinn þannig að menn verða náttúrulega að halda áfram að setja upp plönin og kannski gera ráð fyrir ekkert allt of góðri útkomu þannig að menn séu bara tilbúnir að leysa það skjótt og örugglega.“