Maðurinn sem grunaður er um skotárásina heitir Robert Card, er fertugur og sagður eiga við geðrænan vanda að stríða. Lögregla segir Card hafa lagst inn á geðdeild í tvær vikur í sumar. Hann starfar sem liðþjálfi í varaliðabúðum bandaríska hersins í Maine.
Í gærkvöldi sat lögregla um hús fjölskyldu Cards í bænum Bowdoin, sem er næsti bær við Lewiston, í meira en tvær klukkustundir. Fulltrúar Alríkislögreglunnar FBI kölluðu í gjallarhorn að Card ætti að ganga út með hendur fyrir ofan höfuð en hvorki hann né nokkur annar reyndist inni á heimilinu.
Kvöldið sem hann framdi skotárásina var leið hans frá árásarstað rakin til bæjarins Lisbon, um ellefu kílómetra í suðaustur átt. Þar fann lögreglan hvítan jeppling sem Card var talinn hafa notað til að flýja. Bílnum hafði verið lagt við bryggju í ánni Androscoggin. Lögreglu grunar að Card hafi skilið jeppann eftir og siglt áfram á einum þriggja báta í hans eigu.
Skotvopnalöggjöfin í Maine er lítil sem engin og talið er að um helmingur fullorðinna búi á heimilum þar sem finna má skotvopn. Fólk þarf hvorki leyfi til að kaupa né ganga með skotvopn í ríkinu. Þá gilda þar ekki svokölluð „rauðra-flagga“ lög (e. red flag laws) eins og í sumum öðrum ríkjum, sem gera lögreglu kleift að taka skotvopn af fólki tímabundið ef það er talið hættulegt sér eða samfélaginu.