Sænska ríkisútvarpið segir að óttast sé að annað skipið sé nú sokkið en björgunarstörf eru í fullum gangi. Einum hefur þegar verið bjargað úr sjónum en margra er enn saknað þótt fjöldi þeirra liggi ekki fyrir. Mikill vindur er á svæðinu og ölduhæð sem gerir björgunaraðilum erfitt fyrir.
Þýskir miðlar segja að áreksturinn hafi orðið um klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma en um er að ræða skipin Polesie og Verity.
Verity er 90 metra langt flutningaskip sem siglir undir breskum fána og var á leið frá Bremen til Immingham á Englandi, óttast er að það sé sokkið. Polesie, sem er mun stærra, eða 190 metrar að lengd og siglir undir fána Bahamaeyja laskaðist minna. Það var á leið frá Hamborg til Spánar og eru tuttugu og tveir um borð.