Frá þessu er greint á japanska fréttamiðlinum Japan Today og DV greinir fyrst frá íslenskra miðla. Japan Today hefur eftir lögreglunni í Osaka að árásin hafi átt sér stað klukkan 10:30 morguninn 17. október.
Íslenski maðurinn, sem er 24 ára gamall, er sagður hafa tekið leigubílinn í Kita Ward en neitað að borga fargjaldið, sem voru þrjú þúsund yen eða um 2.800 krónur, þegar hann kom á áfangastað.
Leigubílstjórinn hafi elt íslenska manninn út úr bílnum, sem hafi kýlt hann nokkrum sinnum í andlitið og svo hlaupið í burt. Leigubílstjórinn er sagður hafa fengið minniháttar áverka.
Að sögn lögreglu tókst henni að bera kennsl á manninn eftir að hafa skoðað myndefni úr öryggismyndavélum á svæðinu. Maðurinn var handtekinn á laugardag og hefur hann ekki tjáð sig í yfirheyrslum hjá lögreglu.
Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að ráðuneytið viti af umræddu máli en geti ekki veitt upplýsingar um einstök mál.