Flutningabílum hlöðnum neyðarbirgðum var í morgun hleypt yfir Rafah-landamærin, landamæri Egyptalands og Gasastrandarinnar, í fyrsta skiptið síðan Benjamin Netanjahú forsætisráðherra Ísraels lýsti yfir stríði á hendur Palestínu fyrir tveimur vikum.
Ríflega tvö hundruð flutningabílum hafi verið komið fyrir við landamærin Egyptalandsmegin með um það bil þrjú þúsund tonn af neyðarbirgðum innanborðs. Af þeim tvö hundruð bílum var einungis tuttugu hleypt yfir landamærin.
Hjálparstarfsmenn segjast ekki búast við annarri sendingu af neyðarbirgðum fyrr en í fyrsta lagi á mánudag.
Ísraelsk yfirvöld hafa krafist þess að fá sönnun fyrir því að Hamas hafi ekki lagt hald á sendingarnar, áður en þau heimila fleiri sendingar. Embættismaður Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að staðfesting á því væri í ferli.
Hjálparsamtök eru enn í samningaviðræðum við ísraelsk yfirvöld um að fá að flytja eldsneyti yfir landamærin, sem er nauðsynlegt svo hægt sé að halda sjúkrahúsum og dælikerfum gangandi.
Fimm hundruð flutningabílar daglega fyrir stríð
António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna heimsótti Rafah-landamærin á föstudag. Á friðarfundi í Kaíró í dag sagði hann að brýnt sé að tryggja íbúum Gasa stöðuga aðstoð og eins mikla og þörf krefur. Þá kallaði hann eftir mannúðarvopnahléi til þess að bjarga íbúum Gasa frá ástandi sem hann lýsti sem martraðarkenndu.
Riham Jafari, samskipta- og hagsmunastjóri ActionAid hjálparsamtakanna, sagðist á ráðstefnunni fagna þeirri hjálp sem borist hefur íbúum á Gasasvæðinu. „En það er ljóst að það sem var afhent í dag er varla dropi í hafið. Áður en stríðið hófst komu að jafnaði um fimm hundruð flutningabílar yfir landamærin á hverjum degi og veittu íbúum Gasa, sem þegar stóðu frammi fyrir mannúðarkrísu, lífsnauðsynjar,“ sagði Jafari.
„Auk þess komu flutningabílarnir ekki með eldsneyti sem er nauðsynlegt til þess að knýja rafmagnið á spítölunum áfram, halda sjúkrabílum gangandi og pumpa vatni upp úr jörðinni,“ bætti hann við og gerði í kjölfarið ákall eftir vopnahléi.