Phillips hefur fengið afar fá tækifæri með Manchester City síðan hann var keyptur frá Leeds United fyrir síðasta tímabil. Í vetur hefur Phillips aðeins komið við sögu í þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni og aldrei verið í byrjunarliði City.
Þrátt fyrir fá tækifæri með City hefur Phillips haldið sæti sínu í enska landsliðinu og var meðal annars í byrjunarliði þess í 3-1 sigrinum á Ítalíu í undankeppni EM 2024 í vikunni.
Búist er við því að Phillips fari frá City á láni í janúar. Newcastle United hefur áhuga á miðjumanninum og vilja fá hann til að fylla skarð Sandros Tonali sem er væntanlega á leið í langt bann fyrir brot á veðmálareglum.
Newcastle gæti hins vegar fengið samkeppni úr óvæntri átt, nefnilega frá Bayern. Þar gæti Phillips hitt fyrir félaga sinn úr enska landsliðinu, Kane. Hann kom til Bayern frá Tottenham í sumar og hefur byrjað af krafti hjá þýsku meisturunum. Kane hefur skorað níu mörk í tíu leikjum með Bayern.
City gæti verið tregt til að lána Phillips til Newcastle þar sem Skjórarnir gætu verið í beinni samkeppni við City-menn um enska meistaratitilinn. Því gæti Bayern reynst vænlegri kostur í stöðunni.
Hinn 27 ára Phillips hefur aðeins spilað 26 leiki fyrir City sem pungaði út 45 milljónum punda fyrir hann í fyrra.
Bayern er í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Liðið mætir Mainz á útivelli á morgun.