Tillögur starfshópsins verða teknar fyrir á næstu dögum, skömmu áður en nýtt Kirkjuþing verður sett. Snúa tillögurnar að skipulagi Þjóðkirkjunnar og tengjast þeim skipulagsbreytingum sem dómsmálaráðherra gerði á starfsemi kirkjunnar árið 2021.
Með tillögunum er stefnt að því að aðskilja trúarstarfi Þjóðkirkjunnar frá rekstrarhlutanum, en hingað til hafa báðir hlutar heyrt undir biskupi. Verði þær samþykktar fer stjórn og framkvæmdastjórn þjóðkirkjunnar með fjármál og önnur stjórnsýsluleg mál kirkjunnar.
Sama fyrirkomulag og í öllum söfnuðum
Magnús Erlingsson, einn meðlima starfshópsins, segir að þarna sé ekki verið að minnka völd biskups.
„Við erum bara að taka upp samskonar fyrirkomulag og er í öllum sóknum og söfnuðum. Þar er það sóknarnefndin sem ber ábyrgð á fjármálum og ég held að flestum prestum finnist það gott. Þegar verið er að byggja kirkjur er verið að tala um miklar fjárhæðir og það er verið að taka lán og annað. Þá er gott að prestar þurfi ekki að bera ábyrgð á öllu saman. Enda erum við ekki menntuð í fjármálasýslu og rekstri,“ segir Magnús.
Létti á biskupi
Hann segir tillögurnar koma í veg fyrir að biskup þurfi að svara fyrir öll mál sem tengjast kirkjunni.
„Í dag er það þannig að þegar menn stefna kirkjunni stefna þeir biskup. Það er ekki gott. Ég held að þetta muni létta ýmis konar nauðir af næsta biskupi. Leiðindum sem stjórn kirkjunnar þarf að svara fyrir, þannig er þetta hugsað,“ segir Magnús.