Darwin Nunez, leikmaður Liverpool, kom Úrúgvæum yfir á 42. mínútu. Skömmu síðar féll Neymar við eftir baráttu við Nicolas de la Cruz. Hné Brassans virtist gefa sig og hann hélt um það þar sem hann lá á vellinum og öskraði af sársauka.
Neymar var í kjölfarið borinn af velli, augljóslega sárþjáður og með tárin í augunum. Hann yfirgaf leikvanginn svo á hækjum.
Læknir brasilíska liðsins, Rodrigo Lasmar, segir of snemmt að segja til um hversu alvarleg meiðsli Neymars eru.
„Við framkvæmdum allar skoðanir og endurtökum þær á morgun. Þessi sólarhringur er lykilinn að því að sjá hvernig hnéð hans bregst við, hversu bólgið það verður og hvað myndirnar sýna. Bíðum eftir niðurstöðunum róleg og yfirveguð, förum yfir þær í rólegheitum og af yfirvegun og ég greini ykkur svo frá niðurstöðunum,“ sagði Lasmar.
De La Cruz gulltryggði sigur Úrúgvæ þegar hann skoraði annað mark liðsins á 77. mínútu. Þetta var fyrsti sigur Úrúgvæa á Brössum í 38 leikjum, eða síðan 2001.
Brasilía er í 3. sæti Suður-Ameríkuriðilsins í undankeppni HM 2026. Liðið mætir Kólumbíu og heimsmeisturum Argentínu í næsta mánuði.
Neymar, sem leikur með Al Hilal í Sádi-Arabíu, er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins með 79 mörk. Hann lék sinn 127. landsleik í gær.