Danska liðið hafði þegar tryggt sér sæti á EM er liðið heimsótti San Marínó í kvöld, en San Marínó situr í neðsta sæti styrkleikalista FIFA.
Það kom því líklega fáum á óvart þegar Rasmus Højlund kom Dönum í forystu á 42. mínútu, en líklega kom það ansi mörgum á óvart þegar Alessandro Golinucci jafnaði metin fyrir San Marínó eftir klukkutíma leik.
Yussuf Poulsen endurheimti þó forystu danska liðsins tæpum tíu mínútum síðar og niðurstaðan varð óvænt „bara“ 1-2 sigur Danmerkur. Danska liðið endar því í öðru sæti H-riðils með 19 stig, en San Marínó endar á botninum án stiga. Mark Golinucci var eina mark liðsins í leikjunum átta og liðið endaði með markatöluna 1-26.
Á sama tíma vann Úkraína mikilvægan 1-3 sigur gegn Möltu í C-riðli. Paul Mbong kom heimamönnum í Möltu yfir snemma leiks áður en gestirnir jöfnuðu metin með sjálfsmarki frá Ryan Camenzuli.
Artem Dovbyk kom Úkraínumönnum í forystu stuttu fyrir hálfleik áður en Mykhailo Mudryk gulltryggði sigur Úkraínumanna.
Úkraína situr nú í öðru sæti C-riðils með 13 stig þegar liðið á einn leik eftir, þremur stigum fyrir ofan Ítalíu sem þó á leik til góða.
Úrslit kvöldsins
C-riðill
England 3-1 Ítalía
Malta 1-3 Úkraína
G-riðill
Litháen 2-2 Ungverjaland
Serbía 3-1 Svartfjallaland
H-riðill
Finnland 1-2 Kasakstan
Norður Írland 0-1 Slóvenía
San Marínó 1-2 Danmörk