Í síðustu viku kvartaði Van Dijk yfir því að leikmenn á Englandi spiluðu alltof marga leiki og það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra.
Shearer ræddi ummæli Van Dijks í hlaðvarpinu The Rest is Football og óhætt er að segja að hann hafi ekki gefið mikið fyrir umkvartanir fyrirliða hollenska landsliðsins og Liverpool.
„Kjaftæði, algjört kjaftæði. Eru leikmenn að spila of mikinn fótbolta? Hvað þá? Ég meina, í alvöru,“ sagði Shearer.
„Ég veit að þú ættir aldrei að minnast á peningana en leikmannahóparnir eru stærri en nokkru sinni fyrr, skiptingarnar fleiri, launin hærri og þú ert með bestu sjúkraþjálfarana, bestu tæknina og það besta af öllu. Spila of mikinn fótbolta? Andskotinn hafi það.“
Shearer sagðist vera sammála Van Dijk að landsleikirnir væru of margir en leikirnir með félagsliði væru það ekki.
Van Dijk gerði sigurmark Hollands gegn Grikklandi í undankeppni EM 2024 í gær. Hann skoraði þá úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Virgil hefur spilað sjö af átta leikjum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og fjóra landsleiki fyrir Holland.