Fótbolti

Real í­hugar að sam­eina bræðurna Belling­ham í Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jobe Bellingham gæti verið á leið frá Sunderland til Madríd.
Jobe Bellingham gæti verið á leið frá Sunderland til Madríd. Ben Roberts/Getty Images

Real Madríd festi kaup á Jude Bellingham í sumar og íhugar nú að gera slíkt hið sama við Jobe Bellingham, yngri bróðir Jude.

Hinn tvítugi Jude gekk í raðir Real eftir frábær þrjú ár hjá Borussia Dortmund í Þýskalandi. Það má þó með sanni segja að honum líki lífið vel í Madríd en Jude hefur farið á kostum síðan tímabilið hófst.

Sem stendur hefur þessi öflugi miðjumaður skorað 10 mörk og gefið þrjár stoðsendingar í 10 leikjum. Svo vel hefur Bellingham gengið að Real Madríd íhugar nú að sækja hinn 18 ára gamla Jobe Bellingham sem spilar með Sunderland.

Í frétt El Nacional kemur fram að Juni Calafat, yfirnjósnari Real, hafi mætt á U-19 ára landsleik Englands og Svartfjallalands til að fylgjast með Jobe.

Jobe gekk í raðir Sunderland fyrir yfirstandandi tímabil og er ljóst að Sunderland mun ekki selja drenginn ódýrt sem hefur skorað tvö mörk og gefið eina stoðsendingu í 12 leikjum til þessa. 

Það væri þó eflaust draumur fyrir þá bræður að sameina krafta sína á nýjan leik en báðir eru aldir upp hjá Birmingham City á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×