Færsla sem birtist á íbúahópi Grafarvogs á Facebook í gær, þar sem lýst var eftir vitnum að eggjakasti í strætóskýlinu í Funafold síðdegis á miðvikudag, hefur vakið mikla athygli.
Svo virðist sem rað-eggjakastarar hafi keyrt um hverfið og hrellt íbúa þess. Einn skrifaði í athugasemd að eggjum hafi verið kastað um svipað leyti í bíl hans. Önnur sagðist þekkja til hóps eggjakastara, unglingsdrengja, sem hafi hrellt sjö ára dóttur hennar með eggjakasti fyrr í haust.
Stoppuðu bílinn til að kasta eggjum
Sunneva Arney var á leið á íþróttaæfingu og að bíða eftir strætisvagni þegar hún kom sér grunlaus fyrir í horni strætóskýlisins í Funafold.
„Þá keyrði allt í einu bíll framhjá með opna hurð. Ég horfði á bílinn og hugsaði af hverju er opin hurð en síðan opnaðist hurðin meira og það var unglingsstrákur sem kastaði einhverju út,“ sagði Sunneva.
„Ég leit á það, sá þetta og hugsaði oj þetta er rusl. En allt í einu opnaðist það í loftinu, lenti á buxunum mínum, á gólfinu á bak við mig og sprakk. Ég sá að þetta var egg og þetta var út um allt á mér,“ sagði hún.

Hún segir að sér hafi brugðið enda bláókunnugir strákar þarna á ferð. Betur fór þó en á horfðist.
„Ég er glöð að hann náði ekki að kasta rosalega hátt annars hefði þetta lent í hárinu. Það hefði ekki verið gaman að þrífa það upp,“ sagði Sunneva.
Hún dreif sig samt sem áður á íþróttaæfingu og eftir æfinguna biðu hennar heldur ógeðfelldar gallabuxur.
„Þær hörðnuðu síðan eftir æfinguna. Það var dálítið ógeðslegt að labba í þeim heim,“ sagði Sunneva um eggjabuxurnar.