Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Hörður stofnaði fjölskyldufyrirtækið Norðursiglingu árið 1995 og hefur fyrirtækið verið með heimahöfn á Húsavík og um árabil boðið upp á hvalaskoðun og ævintýrasiglingar.
Norðursigling á einnig veitingastaðinn Gamla Bauk á Húsavík og tók þátt í uppbyggingu á sjóböðunum á Húsavík sem opnuðu árið 2018.
Í Morgunblaðinu kemur fram að Hörður hafi fæðst á Húsavík 9. september 1952, sonur Hildar Jónsdóttur frá Yztafelli og Sigurbjarnar Sörenssonar frá Voladal á Tjörnesi. Þau lifa bæði Hörð.
Hörður var menntaður vélstjóri og frumkvöðull í íslenskri ferðaþjónustu en Norðursigling var fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu við stofnun.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Sigríður Þ. Einarsdóttir, en þau eignuðust þrjú börn.