Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Já, það var talsvert af verkefnum í nótt og nokkuð víða á landinu. Það var kallað út í Hveragerði vegna foktjóna þar. Á Laugarvatni voru hjólhýsi sem biðu eftir að komast í geymslu að fjúka til, auk þess að það var fok þar á byggingasvæði.
Í Bolungarvík var fokútkall og austur á Héraði þurfti að sækja fólk upp í Brúardali sem hafði fest sig, auk þess sem dráttarbílar sem höfðu verið sendir á eftir þeim höfðu fest sig,“ segir Jón Þór.
Hann segir að líklega hafi þó stærsta útkallið í nótt verið vegna tveggja manna sem höfðu farið inn á Fjallabak. „Þeir ætluðu að fara norður og austur á land fyrir norðan jökul en festu sig og var talsvert viðbragð við að fara að leita að þeim. Þeir fundust svo þar sem þeir höfðu fest bíl sinn í Brennivínskvísl. Það tók talsverðan tíma að komast til þeirra og losa þá. Þeir voru komnir til byggða um klukkan fjögur í nótt,“ segir Jón Þór.
Fjöldahjálparstöð opnuð á Djúpavogi
Hringveginum á milli Hafnar og Djúpavogs var lokað í gær vegna veðurhamsins og er hann enn lokaður. Á vef Vegagerðarinnar segir að nýjar upplýsingar komi klukkan níu. Hinsvegar er búið að opna á milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs.
Fjöldahjálparstöð var opnuð á Djúpavogi í gær vegna veðursins en nokkur fjöldi ferðamanna urðu þar strandaglópar þegar hringveginum var lokað að því er fram kemur í Facebook færslu lögreglunnar á Austurlandi.