Þegar menn verða hænsn Guðfinnur Sigurvinsson skrifar 8. október 2023 19:08 Að vekja ótta, ógeð og viðbjóð á því sem er frábrugðið og öðruvísi meginstraumnum til að upphefja eigið norm og styrkja sína stöðu er manneskjunni því miður eðlislægt og er rót alls þess versta í mannlegu eðli, eins og sagan hefur margsinnis sýnt okkur. Þetta er leið til að viðhalda undirokun minnihlutahópa og byggir á sama kerfi og hænsn hafa sér komið upp. Þar sem skýr goggunarröð ríkir. Hænan með mestu og stærstu fjaðrirnar ræðst á aðra sem hefur færri fjaðrir. Sú ræðst á enn aðra sem telst henni óæðri – þar til hin síðasta er hrakin út í rauðan dauðann af öllum hópnum. Jaðarsett og réttdræp, reitt öllum sínum fjöðrum. Ergo, hinn viti borni maður hagar sér eins og hæna þegar allt kemur til alls. Þegar umræða og fræðsla eykst um ólíkan félagslegan veruleika fólks og úr verður vaxandi skilningur samfélagsins verja ráðandi hænurnar stöðu sína með að draga athyglina að því sem vekur mesta spéhræðslu fólks, það er hin helgu vé, kynlífið og kynfærin. Og tengja þessa þætti verndun æskunnar. Þarna er alltaf hægt að hrista upp í fólki og hvetja til árásargirni. Þetta höfum við séð og lesið síðustu vikur tengt transfólki sem er nú samkvæmt nettröllum helsta ógnin við börn landsins. Þar áður var sambærileg herferð háð gegn samkynhneigðu fólki og þar áður þótti það hryllilegasta sem hægt var að hugsa sér að þeldökkur maður nyti ásta með hvítri konu. Blöndun ólíkra kynþátta máluð sem endalok siðmenningar og svartir hermenn frá Bandaríkjunum því afþakkaðir við varnir landsins okkar af ráðamönnum Íslands þess tíma. Þegar sagan er skoðuð vaknar lykilspurningin: Hvernig hefur aukið frjálslyndi eða virðing fyrir frelsi, mannréttindum og mannhelgi ólíkra þjóðfélagshópa til þessa kastað ryki á risastórar fjaðrir aðalhænunnar og fokkað í tilvist hennar? Svarið er augljóst, auðvitað ekki neitt. Hvernig var gamla samfélagið betra? Röngum og fölskum upplýsingum um fræðslu Samtakanna ‘78 í grunnskólum hefur nú vikum saman verið haldið að almenningi í skipulagðri herferð og nytsamir sakleysingjar, sem kunna ekki upplýsingaúrvinnslu á netinu, virkjaðir með ruglinu til að skapa óróa, átök, ótta, reiði, fordóma og hatur í samfélaginu. Ég sit í bæjarstjórn Garðabæjar sem er eitt þeirra sveitarfélaga sem stóð þverpólitískt að gerð fræðslusamnings við Samtökin ‘78 í grunnskólunum og þar er í hvívetna mjög faglega staðið að málum. Upplýsingar um form fræðslunnar má fá hjá skólaskrifstofu sveitarfélaga, skólastjórnendum og Samtökunum ‘78 sjálfum. Ef þar má eitthvað bæta eða gera betur þá fögnum við slíkum ábendingum en upplýsingaóreiðuherferðin sem nú stendur yfir hefur hvorki áhuga á því né vitrænu samtali um fræðsluna, aðeins eyðileggingu. Þegar ég var ungur drengur að alast upp í Keflavík var það eina sem ég fékk um samkynhneigð og homma í textaformi á stærð við lítinn eldspýtustokk í kynfræðslubókinni og undarleg spenna og eftirvænting ríkti í bekknum að sjá hvernig líffræðikennarinn, virðuleg og settleg kona, myndi klóra sig út úr því að segja okkur að til væri eitthvað sem þá var kallað hómósexúalismi. Ekki spillti fyrir að dönsk myndskreytingin af tveimur karlmönnum, báðir með myndarlegt yfirvaraskegg sem snertust létt vanga við vanga, var afar gamaldags og vakti mikla kátínu. Í Keflavík á þessum árum var vitað um eitt hommapar sem bjó saman í bænum og við krakkarnir lágum í fáfræði okkar og heimsku á gluggum hjá þeim til að reyna að sjá hvor væri kallinn og hvor konan í sambandinu. Svona virkaði nú þetta gamla samfélag sakleysisins og bláeygðra barna sem allt kapp er nú lagt á að fá aftur af þröngum en afar háværum hópi fólks. Fræðslan sem ég fékk ekki Ég þurfti eftir á að hyggja minna á kynfræðslu að halda en mun meira á fræðslu um þann félagslega veruleika sem bíður þeirra sem teljast frábrugðin í hænsnahjörðinni. Það hefðu hinar hænurnar líka þurft til að skilja minn veruleika betur sem þær gera í raun ekki fyllilega enn. Dæmi um atriði sem ég hefði þurft að vita en var ekki fræddur um: • Ég hefði þurft að vita að ég myndi fara alveg á mis við allt sem heitir unglinga- og menntaskólaást og aldrei getað talað við nokkurn mann um það sem mér fannst aðlaðandi eða haft frelsi til að þroska sjálfsmynd mína í tengslum við kynþokka. Jafnvel að eftir að ég kæmi út úr skápnum svo seint sem árið 2004, en ég er fæddur 1978, þyrfti ég áfram að skáskjóta augunum ef mér fannst strákur sætur, fyllast tafarlausri skömm og forðast hann af ótta við vond viðbrögð. Óttast um leið að í samskiptum við jafnvel nána gagnkynhneigða vini mína af karlkyni sem ég ber engar slíkar tilfinningar til geti faðmlag, klapp á öxl, koss á kinn eða minnsta snerting misskilist sem viðreynsla þannig þeir hafni vináttunni við mig. • Ég hefði þurft að vita að þegar ég yrði reiðubúinn að hefja starfsferilinn þá gildi ósýnileg lögmál á vinnumarkaði sem hamla samkynhneigðum körlum á framabraut. Að þrátt fyrir margvíslega hæfileika, breiða og góða menntun sem á að skapa tækifærin þá myndi það alltaf gerast að hinir strákarnir sem hafa mun lakari ferilsskrá og jafnvel minni menntun en ég – geta jafnvel verið húrrandi virkir alkar fyrir allra augum – alltaf taka fram úr mér og fá fyrirhafnarlítið góðu ábyrgðarstöðurnar á meðan ég og hinir hommarnir úr öllum stéttum festumst á bakvið glervegginn þar sem konur stóðu áður. Allt kannski bara af því þeir geta spekúlerað og gantast við aðalkallinn sem öllu ræður á vinnustaðnum um golfið, laxveiði og gengi Man Utd. Þeir metnir harðnaglar sem geta stýrt skútunni en þú fyrirfram álitinn dramatískur og veikgeðja verandi hommi, þrátt fyrir að hafa á þessum tímapunkti ævinnar tekist á við þúsund sinnum meira mótlæti en þeir og stendur samt þarna í lappirnar í grennd við aðalkallinn. •Ég hefði þurft að vita að ég þurfti ekki sem unglingur að líta á áhuga- og þátttökuleysi mitt í boltaíþróttum sem merki um eigin ófullkomnun og samfélagslega fötlun. Ég hefði líka þurft að vita sextán ára að skapandi hliðin mín og listræn næmni mátti njóta sín strax þá með því að læra hársnyrtiðn án þess að ég væri þar með sjálfkrafa álitinn hommi af öllum. Nokkuð sem þá var djúpt grafið og afar viðkvæmt leyndarmál í undirmeðvitundinni. Að það hefði alltaf verið óþarfi fyrir mig að læra að klippa 44 ára þegar sjálfstraustið loks leyfði til að bæta þessum 16 ára stráklingi upp drauminn sinn. • Ég hefði líka þurft að vita að takmarkaðir möguleikar mínir sem barns til að taka þátt í því sem ég unni mest og var leiklist á Opnu húsi í skólanum átti alls ekki að kosta mig níu ára gamlan massívt einelti og að H-orðið væri kallað á eftir mér á göngum og skólalóðinni af því ég þorði að leika kvenhlutverk, sem hafði ekkert með kynhneigð eða drag að gera heldur var byggt á Elsu Lund og ætlað að skemmta og gleðja. Ég þurfti líka að vita að það átti aldrei að hvíla níðþungt á mínum níu ára gömlu herðum að fela þetta einelti fyrir foreldrum mínum og yngri bróður mánuðum saman af því mér fannst ég hafa fært heimilinu skömm og niðurlægingu með því að leika þetta hugsunarlaust þannig að eftir sat klemma í sjálfinu sem allar götur síðan stíflaði listræna sköpun af ótta við afhjúpun. • Ég hefði líka þurft að vita að þegar ég hæfi stjórnmálaþátttöku með tvær háskólagráður í stjórnmálafræði og Opinberri stjórnsýslu, miklu getu í stjórnmálagreiningu og ræðuskrifum, með starfsbakgrunn í fjölmiðlum, hjá stórfyrirtæki á markaði og opinberri stofnun, að mér yrði aldrei boðið upp á annað en sama starfsvettvang og helmingi yngra og reynsluminna fólki býðst. Að ég yrði aldrei tekinn með eða hafður í návígi við alvöru stefnumótun og ákvarðanatöku heldur haldið í mjúku málunum og beðinn miðaldra um að skreyta sal fyrir prófkjörspartý. Af því glys og skreytingar elska jú allir hommar eins og allir blökkumenn geta sungið, ekki satt? • Ég hefði líka þurft að vita að ég átti aldrei að taka til mín og sitja undir fyllirísrausi þáverandi þingmanns sem sagði mér í óspurðum fréttum á bar seint um kvöld að ég hefði margt til brunns að bera sem góður frambjóðandi til þings en tók svo fram í því sem hann taldi vináttu og umhyggju fyrir mér að ég myndi samt aldrei ná langt á stjórnmálasviðinu því röddin í mér væri svolítið hommaleg og kjósendur hafni þannig fólki. Þannig væri bara staðan í raunveruleikanum þrátt fyrir allt og vinur sá er til vamms segir. • Hefði ég vitað þetta þá hefði ég líka vitað þegar ég hóf störf sem sjónvarpsfréttamaður að það var með öllu ónauðsynlegt á árunum fyrir barferðina þar sem ég hitti þingmanninn, að ritskoða sjálfan mig eftir flesta fréttatíma með því að fara í gegnum upptökur ofurgagnrýnum augum og þjálfa mig í að pússa burt alla vankanta sem hommalegir gátu talist eins og kvenlegan blæ í raddbeitingu, handahreyfingar og fleira. Allt til þess eins að vera meira eins og djúpradda fréttaþulirnir í aðalfréttatímanum og hörkutólin í Kastljósi enda rötuðu slík tækifæri ekki til mín nema í eitt einasta sinn í mýflugumynd, stutt afleysing í mannahallæri. • Ég hefði líka þurft að vita að ég yrði kominn á háskólaaldur þegar ég loks í skjóli stórborgarinnar New York gat keypt fallega myndskreytta og faglega framsetta kynfræðslubók sem hét Gay Sex og gat skoðað hana í næði með tveimur bestu vinkonum mínum og fyrst uppgötvað hvernig það fer í rauninni fram en það er mjög á skjön við ímynd almennings og allt galgopagrín. Þær sögðu mér að ég minnti þær rúmlega tvítugur á hvernig þær voru þrettán ára að skoða Kvennafræðarann úti í horni á skólabókasafninu. • Ég hefði líka viljað vita að það yrði ekki fyrr en á mennta- og háskólaárum mínum sem ég fengi loks fyrst að sjá sjónvarpsþætti og kvikmyndir í almannarýminu sem sýndu mér homma eins og fullgilda manneskju og kynveru en ekki sem sprelligosa og kjána – hlutverkið sem félagsmótunin hefur kennt okkur hommunum mörgum að leika í eigin lífi til að komast af – en það hefði jafnframt þurft að vara mig við að í kvikmyndahúsum þyrfti ég að búa mig undir hiss, fliss og ojjj annarra gesta í svartamyrkrinu meðan á sýnjngu stendur. Ískalt flissið sem tryggir að ég gleymi því aldrei að virðingin fyrir ástarsögunni er á hvíta tjaldinu en ekki í raunveruleikanum þar sem ég bý. Ég hefði þurft að vita þetta allt og svo margt annað, að ég yrði viðskila við Þjóðkirkjuna um langt skeið og þyrfti að finna til vanmáttar þar á björtum gleðidegi nánustu vina því þau máttu gifta sig en ekki ég, að ég myndi sjá ungan strák ganga niðurbrotinn út af Þjóðskrá í kringum 2000 af því að hann mátti ekki skrá sig í sambúð og mér leið eins og svikara af því ég að ég var ekki kominn út úr skápnum og gat þess vegna ekki farið á eftir honum og hughreyst hann. Þetta er bara brotabrot af mun lengri lista. Undir regnboganum Að tilheyra samfélagi regnbogans er á margan hátt dásamlegt, nokkuð sem ég tilheyri með stolti í dag. Elska og virði. Eftir á að hyggja er þessi erfiða lífsreynsla þakkarverð enda grunnur að mörgum af mínum helstu styrkleikum sem fullorðins manns. Ég get loks staðið í miðju lífsins frjáls og sterkur. En það tekur á að lifa lífinu þannig að manni finnist maður á jarðsprengjusvæði alla daga og þurfi stöðugt að vera varðbergi og viðbúinn því að fólk meðvitað eða ómeðvitað smætti mann í hommaboxið, misskilji mann og særi með vanhugsuðum orðum sem afhjúpa félagsmótun okkar allra á liðnum áratugum. Við erum nefnilega öll fórnarlömb fáfræðinnar sem mótaði okkur þá með hlekki fortíðar fasta um að minnsta kosti annan ökklann. Regnbogasamfélagið er líka flókið og þar myndast líka goggunarröð. Við erum hvorki fullkomin né betri en annað fólk. Við eigum tiltekna þætti sameiginlega en að öðru leyti erum við gjörólík. Undir regnboganum getur myndast samkeppni um hvert jafnasta dýrið á býlinu sé og við skorum hátt í áhættuhópum hvað varðar alkóhólisma og fíkn, þunglyndi, kvíða og sjálfsvíg. Við göngum sum um með stóra varnarskildi í mannlegum samskiptum sem geta verið alvöruleysi, kaldhæðni, hroki og yfirlæti, sýndar- og yfirborðsmennska, æsku- og líkamsdýrkun og þessir skildir verja okkur fyrir djúpum tengslum, eigin viðkvæmni og öllu sem snertir kjarna máls. Stundum eigum við erfitt með að mynda heilbrigð vinatengsl okkar á milli því sameiginlegar rætur okkar liggja í sameiginlegu trauma og speglum þar hvort annað án möguleika til samhjálpar. Þetta er mynd og endurlit sem við þolum ekki sjá og hliðstætt því sem gerist í vanvirkum stórfjölskyldum þar sem drykkjusýki, kúgun og yfirgangur ömmu og afa beyglar og mengar innbyrðis tengsl barna og barnabarna þeirra um ókomin ár vegna þess að sameiginlegt minni fjölskyldunnar snýst um harm, ljótar, sárar og vondar upplifanir, þögn og þvingaða samstöðu um fjölskylduleyndarmálin. Og því miður bendir margt til þess að upplýsingaóreiðuherferðin sem nú er háð gegn transfólki og skólafræðslu Samtakanna ‘78 sé studd af og brotin uppi af hluta af okkar eigin fólki, einkum þröngum hópi samkynhneigðra karlmanna. Það er visst sjokk en hvað veldur? Að ráðast á sinn eigin Hommar rétt eins og aðrir karlmenn hafa alast upp í eitraðri karlmennsku og tengdum hugmyndum.Það er vel þekkt að hommar upplifi sjálfshatur og -fyrirlitningu í tengslum við karlmennsku sína. Þeir sem festast þar geta þannig komið út úr skápnum en barist að öðru leyti áfram gegn öllu sem snertir málefni hópsins og beitt sér þannig í umræðu um hann. Þeir loka sig inni í búbblu því þeir vilja ekki láta pota í opið sár. Þegar verst lætur verða þeir eins og hænan rétt undir miðju goggunarraðar sem vill komast í mjúkinn hjá aðalhænunni með því að gerast herskáasta hænan í öllum kofanum og ráðast harkalegar en aðrar á veikustu hænuna til að forða sér frá sömu örlögum í von um að verða meðtekin af ráðandi öflum. Aðeins betri en skítugu hænurnar. Og með þessu vill hún upplifa fullt sjálfvirði á ný. Þetta er vesalings hænan sem á mest bágt og þarf mestu aðstoðina. Öruggt upplýsingaskjól lykilatriði Ég er stoltur af þátttöku minni sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ við gerð þjónustusamningsins við Samtökin ‘78. Og ég stend fyllilega með honum og einmitt vegna þess að ég tilheyri regnbogasamfélaginu reifaði ég í aðdragandum gagnrýnar spurningar um jafnræði við önnur sambærileg félög, hvort heppilegt væri að mannréttindasamtök sem þurfa að gagnrýna stjórnvöld séu um leið háð þeim með fjármagn og fleira. Þá umræðu þurfti að taka, hér var hvorki stokkið til í hvatvísi né pólitískri tækifærismennsku. En þegar tveir mætir ótengdir menn, báðir feður skólabarna búsettir í Garðabæ, sendu mér tölvupósta óháð þessari umræðu um samninginn og sögðu mér í mikilli einlægni af aðstæðum og daglegu lífi barna sinna sem eru trans í skólum bæjarins þá hvarf miðaldra bæjarfulltrúinn með bindið sem vildi vanda stjórnsýsluna og póstinn las níu ára strákurinn sem vildi skemmta jafnöldrum sínum með því að leika hliðarsjálf Elsu Lund en uppskar allt annað. Stundum heyrum við mestu skynsemina með því að hlusta á hjartað. Þessa fræðslu þarf sárlega. Við erum blessunarlega ekki lengur að lifa árið 1980 þar sem við getum stýrt því hvaða bækur börn lesa eða hvað þau horfa á í sjónvarpinu. Þau hafa óheftan aðgang að netinu og öllu sem þar þrífst og vita fullvel óháð því sem sagt er í skólanum að til er trans, hán, kvár, samkynhneigð og hvað annað. Þau hins vegar fá þar líka óábyrgar og mannskemmandi upplýsingar af samfélagsmiðlum og úr klámi. Ef aldrei er rætt við þau um það og öruggt skjól skapað til upplýstrar umræðu þar sem þau fá að tala í raunheimum við raunverulegt fólk sem sætir ábyrgð á sinni fræðslu þá fyrst er voðinn vís. Þá fara unglingspiltar yfir mörk stelpna við fyrstu samfarir því þeir hafa bara séð brenglað klám á netinu og halda að það sé kynlíf. Og kynferðisbrot verða grófari en fyrr og enginn skilur af hverju. Veljum þá heldur ábyrga og örugga umræðu og fræðslu, því börnin og ungmennin skilja betur og meira og lífið mun alltaf hvort eð er sýna þeim sannleikann. Rétt að lokum Sumt fólk segist ægilega þreytt á þessari umræðu allri um málefni hinsegin fólks og vill losna við hana. Það er ég líka enda hef ég hlustað á hana og lifað á eigin skinni allt mitt líf. Stöðugt stapp um einfaldan sannleik er hundleiðinlegt en nauðsynlegt þegar sagan endurtekur sig án lærdóms. En ávinningur er til staðar og ég vil ljúka þessum skrifum með sannri stuttri sögu sem staðfestir það. Lítill strákur hvers fjölskyldu ég er venslaður, býr í íslenskri sveit þar sem ekkert er um Regnbogafólk í grennd sem hann getur litið til eða hermt eftir. Allt gengur þar sinn vanagang eins og íslenska sveitasamfélagið hefur gert um aldir. Þessi strákur hefur viljað frá því hann var bara rétt farinn að ganga og tala klæðast kjólum, safna hári og leika sér með dót sem áður taldist stelpudót. Foreldrar hans tóku þá ákvörðun að koma engri skömm inn hjá honum með þetta og öll stórfjölskyldan var upplýst, þ.m.t ég. Og þess vegna hefur hann til dæmis fengið senjórítukjóla frá Spáni í gjöf frá vinum og ættmennum á faraldsfæti og hann alveg tárast af gleði. Á stórfjölskyldumóti fyrir fáeinum árum bauð hann upp á naglalökkunarþjónustu á spottprís og bæði karlarnir og konurnar skiptu við unga snyrtifræðinginn og litríkar neglurnar á hvers manns hendi lífguðu upp á samkomuna. En það gerðist meira því þrír frændur litla stráksins, allt rígfullorðnir rammíslenskir bændur og iðnaðarmenn, mættu í kjólum honum til samlætis. Myndirnar frá þessu frábæra fjölskyldumóti geisla allar af birtu, hamingju og gleði, ekki síst í augum og andliti þess unga sem hefur á sinni stuttu ævi til þessa kennt okkur hinum meira um margslungna tilveruna en ýmsir aðrir sem fylgdu reglunum gerðu á heilli lífstíð. Nú veit maður ekkert með ung börn hvenær eitt endar og annað tekur við, til þess þarf pilturinn ungi þroska, svigrúm og frelsi til frekari sjálfsuppgötvunar. Það hefur hann haft en nú þegar hann er að detta á grunnskólaaldur getur maður aðeins vonað og beðið að hann fái þar að sýna öllum fjaðrirnar sínar eins þær eru af Guði gerðar frjáls undan áreiti og einelti. Það getur gerst með ábyrgri fræðslu snemma. En eitt hefur hann þó nú þegar, hann veit að á sínu heimili og með sinni stórfjölskyldu er hann elskaður eins og hann er. Frumbernskan er björt. Hann þarf aldrei að fela neitt eða upplifa skömm þar sem við erum og vera hans hér í þessum heimi hefur gert hænsnakofann okkar allra að betri, litríkari og fallegri stað þar sem hver má njóta sín á eigin forsendum því það er friður og öryggi fyrir öll í okkar litla hænsnakofa. – Um þetta snýst allt málið. Svo óskaplega einfalt þegar allt kemur til alls. Í hvaða hænsnakofa vilt þú búa? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðfinnur Sigurvinsson Hinsegin Mest lesið Gerviverkalýðsfélagið Efling Aðalgeir Ásvaldsson Skoðun Réttindagæsla fatlaðs fólks á valdi þekkingarleysis Jón Þorsteinn Sigurðsson Skoðun Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite Skoðun Þú mátt nauðga ef einhver karl á internetinu leyfir þér það Guðný S. Bjarnadóttir Skoðun Þar lágu Danir í því: Stórveldi eiga hagsmuni, ekki vini? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Áhugamönnum um hagræðingu fjölgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Gagnlegar símarettur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Pólitíkin þá og nú Ingibjörg Kristín Ingólfsdóttir Skoðun Lýðræðið í hættu – stjórnmálaflokkar án lýðræðislegrar uppbyggingar Svanur Guðmundsson Skoðun Skoðun Skoðun Lýðræðið í hættu – stjórnmálaflokkar án lýðræðislegrar uppbyggingar Svanur Guðmundsson skrifar Skoðun Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir skrifar Skoðun Þú mátt nauðga ef einhver karl á internetinu leyfir þér það Guðný S. Bjarnadóttir skrifar Skoðun Pólitíkin þá og nú Ingibjörg Kristín Ingólfsdóttir skrifar Skoðun Þar lágu Danir í því: Stórveldi eiga hagsmuni, ekki vini? Hilmar Þór Hilmarsson skrifar Skoðun Gagnlegar símarettur Davíð Már Sigurðsson skrifar Skoðun Réttindagæsla fatlaðs fólks á valdi þekkingarleysis Jón Þorsteinn Sigurðsson skrifar Skoðun Gerviverkalýðsfélagið Efling Aðalgeir Ásvaldsson skrifar Skoðun Áhugamönnum um hagræðingu fjölgar Diljá Mist Einarsdóttir skrifar Skoðun Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite skrifar Skoðun Sorg barna - fyrstu viðbrögð barna við missi Matthildur Bjarnadóttir skrifar Skoðun Með styrka hönd á stýri í eigin lífi Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Hjólað inní framtíðinna Búi Bjarmar Aðalsteinsson skrifar Skoðun Framsækin ríkisstjórn í umhverfis- og auðlindamálum: Nýi stjórnarsáttmálinn. Stefán Jón Hafstein skrifar Skoðun Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir skrifar Skoðun Komdu út að „Vetrar-leika“ í Austurheiðum Reykjavíkur Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Upprætum óttann við óttann Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar Skoðun Hér er kona, um konu… Vilborg Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson skrifar Skoðun Ertu á krossgötum? Þuríður Santos Stefánsdóttir skrifar Skoðun Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins? Sigurjón Þórðarson skrifar Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson skrifar Skoðun Máttur kaffibollans Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen skrifar Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason skrifar Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson skrifar Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir skrifar Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson skrifar Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson skrifar Sjá meira
Að vekja ótta, ógeð og viðbjóð á því sem er frábrugðið og öðruvísi meginstraumnum til að upphefja eigið norm og styrkja sína stöðu er manneskjunni því miður eðlislægt og er rót alls þess versta í mannlegu eðli, eins og sagan hefur margsinnis sýnt okkur. Þetta er leið til að viðhalda undirokun minnihlutahópa og byggir á sama kerfi og hænsn hafa sér komið upp. Þar sem skýr goggunarröð ríkir. Hænan með mestu og stærstu fjaðrirnar ræðst á aðra sem hefur færri fjaðrir. Sú ræðst á enn aðra sem telst henni óæðri – þar til hin síðasta er hrakin út í rauðan dauðann af öllum hópnum. Jaðarsett og réttdræp, reitt öllum sínum fjöðrum. Ergo, hinn viti borni maður hagar sér eins og hæna þegar allt kemur til alls. Þegar umræða og fræðsla eykst um ólíkan félagslegan veruleika fólks og úr verður vaxandi skilningur samfélagsins verja ráðandi hænurnar stöðu sína með að draga athyglina að því sem vekur mesta spéhræðslu fólks, það er hin helgu vé, kynlífið og kynfærin. Og tengja þessa þætti verndun æskunnar. Þarna er alltaf hægt að hrista upp í fólki og hvetja til árásargirni. Þetta höfum við séð og lesið síðustu vikur tengt transfólki sem er nú samkvæmt nettröllum helsta ógnin við börn landsins. Þar áður var sambærileg herferð háð gegn samkynhneigðu fólki og þar áður þótti það hryllilegasta sem hægt var að hugsa sér að þeldökkur maður nyti ásta með hvítri konu. Blöndun ólíkra kynþátta máluð sem endalok siðmenningar og svartir hermenn frá Bandaríkjunum því afþakkaðir við varnir landsins okkar af ráðamönnum Íslands þess tíma. Þegar sagan er skoðuð vaknar lykilspurningin: Hvernig hefur aukið frjálslyndi eða virðing fyrir frelsi, mannréttindum og mannhelgi ólíkra þjóðfélagshópa til þessa kastað ryki á risastórar fjaðrir aðalhænunnar og fokkað í tilvist hennar? Svarið er augljóst, auðvitað ekki neitt. Hvernig var gamla samfélagið betra? Röngum og fölskum upplýsingum um fræðslu Samtakanna ‘78 í grunnskólum hefur nú vikum saman verið haldið að almenningi í skipulagðri herferð og nytsamir sakleysingjar, sem kunna ekki upplýsingaúrvinnslu á netinu, virkjaðir með ruglinu til að skapa óróa, átök, ótta, reiði, fordóma og hatur í samfélaginu. Ég sit í bæjarstjórn Garðabæjar sem er eitt þeirra sveitarfélaga sem stóð þverpólitískt að gerð fræðslusamnings við Samtökin ‘78 í grunnskólunum og þar er í hvívetna mjög faglega staðið að málum. Upplýsingar um form fræðslunnar má fá hjá skólaskrifstofu sveitarfélaga, skólastjórnendum og Samtökunum ‘78 sjálfum. Ef þar má eitthvað bæta eða gera betur þá fögnum við slíkum ábendingum en upplýsingaóreiðuherferðin sem nú stendur yfir hefur hvorki áhuga á því né vitrænu samtali um fræðsluna, aðeins eyðileggingu. Þegar ég var ungur drengur að alast upp í Keflavík var það eina sem ég fékk um samkynhneigð og homma í textaformi á stærð við lítinn eldspýtustokk í kynfræðslubókinni og undarleg spenna og eftirvænting ríkti í bekknum að sjá hvernig líffræðikennarinn, virðuleg og settleg kona, myndi klóra sig út úr því að segja okkur að til væri eitthvað sem þá var kallað hómósexúalismi. Ekki spillti fyrir að dönsk myndskreytingin af tveimur karlmönnum, báðir með myndarlegt yfirvaraskegg sem snertust létt vanga við vanga, var afar gamaldags og vakti mikla kátínu. Í Keflavík á þessum árum var vitað um eitt hommapar sem bjó saman í bænum og við krakkarnir lágum í fáfræði okkar og heimsku á gluggum hjá þeim til að reyna að sjá hvor væri kallinn og hvor konan í sambandinu. Svona virkaði nú þetta gamla samfélag sakleysisins og bláeygðra barna sem allt kapp er nú lagt á að fá aftur af þröngum en afar háværum hópi fólks. Fræðslan sem ég fékk ekki Ég þurfti eftir á að hyggja minna á kynfræðslu að halda en mun meira á fræðslu um þann félagslega veruleika sem bíður þeirra sem teljast frábrugðin í hænsnahjörðinni. Það hefðu hinar hænurnar líka þurft til að skilja minn veruleika betur sem þær gera í raun ekki fyllilega enn. Dæmi um atriði sem ég hefði þurft að vita en var ekki fræddur um: • Ég hefði þurft að vita að ég myndi fara alveg á mis við allt sem heitir unglinga- og menntaskólaást og aldrei getað talað við nokkurn mann um það sem mér fannst aðlaðandi eða haft frelsi til að þroska sjálfsmynd mína í tengslum við kynþokka. Jafnvel að eftir að ég kæmi út úr skápnum svo seint sem árið 2004, en ég er fæddur 1978, þyrfti ég áfram að skáskjóta augunum ef mér fannst strákur sætur, fyllast tafarlausri skömm og forðast hann af ótta við vond viðbrögð. Óttast um leið að í samskiptum við jafnvel nána gagnkynhneigða vini mína af karlkyni sem ég ber engar slíkar tilfinningar til geti faðmlag, klapp á öxl, koss á kinn eða minnsta snerting misskilist sem viðreynsla þannig þeir hafni vináttunni við mig. • Ég hefði þurft að vita að þegar ég yrði reiðubúinn að hefja starfsferilinn þá gildi ósýnileg lögmál á vinnumarkaði sem hamla samkynhneigðum körlum á framabraut. Að þrátt fyrir margvíslega hæfileika, breiða og góða menntun sem á að skapa tækifærin þá myndi það alltaf gerast að hinir strákarnir sem hafa mun lakari ferilsskrá og jafnvel minni menntun en ég – geta jafnvel verið húrrandi virkir alkar fyrir allra augum – alltaf taka fram úr mér og fá fyrirhafnarlítið góðu ábyrgðarstöðurnar á meðan ég og hinir hommarnir úr öllum stéttum festumst á bakvið glervegginn þar sem konur stóðu áður. Allt kannski bara af því þeir geta spekúlerað og gantast við aðalkallinn sem öllu ræður á vinnustaðnum um golfið, laxveiði og gengi Man Utd. Þeir metnir harðnaglar sem geta stýrt skútunni en þú fyrirfram álitinn dramatískur og veikgeðja verandi hommi, þrátt fyrir að hafa á þessum tímapunkti ævinnar tekist á við þúsund sinnum meira mótlæti en þeir og stendur samt þarna í lappirnar í grennd við aðalkallinn. •Ég hefði þurft að vita að ég þurfti ekki sem unglingur að líta á áhuga- og þátttökuleysi mitt í boltaíþróttum sem merki um eigin ófullkomnun og samfélagslega fötlun. Ég hefði líka þurft að vita sextán ára að skapandi hliðin mín og listræn næmni mátti njóta sín strax þá með því að læra hársnyrtiðn án þess að ég væri þar með sjálfkrafa álitinn hommi af öllum. Nokkuð sem þá var djúpt grafið og afar viðkvæmt leyndarmál í undirmeðvitundinni. Að það hefði alltaf verið óþarfi fyrir mig að læra að klippa 44 ára þegar sjálfstraustið loks leyfði til að bæta þessum 16 ára stráklingi upp drauminn sinn. • Ég hefði líka þurft að vita að takmarkaðir möguleikar mínir sem barns til að taka þátt í því sem ég unni mest og var leiklist á Opnu húsi í skólanum átti alls ekki að kosta mig níu ára gamlan massívt einelti og að H-orðið væri kallað á eftir mér á göngum og skólalóðinni af því ég þorði að leika kvenhlutverk, sem hafði ekkert með kynhneigð eða drag að gera heldur var byggt á Elsu Lund og ætlað að skemmta og gleðja. Ég þurfti líka að vita að það átti aldrei að hvíla níðþungt á mínum níu ára gömlu herðum að fela þetta einelti fyrir foreldrum mínum og yngri bróður mánuðum saman af því mér fannst ég hafa fært heimilinu skömm og niðurlægingu með því að leika þetta hugsunarlaust þannig að eftir sat klemma í sjálfinu sem allar götur síðan stíflaði listræna sköpun af ótta við afhjúpun. • Ég hefði líka þurft að vita að þegar ég hæfi stjórnmálaþátttöku með tvær háskólagráður í stjórnmálafræði og Opinberri stjórnsýslu, miklu getu í stjórnmálagreiningu og ræðuskrifum, með starfsbakgrunn í fjölmiðlum, hjá stórfyrirtæki á markaði og opinberri stofnun, að mér yrði aldrei boðið upp á annað en sama starfsvettvang og helmingi yngra og reynsluminna fólki býðst. Að ég yrði aldrei tekinn með eða hafður í návígi við alvöru stefnumótun og ákvarðanatöku heldur haldið í mjúku málunum og beðinn miðaldra um að skreyta sal fyrir prófkjörspartý. Af því glys og skreytingar elska jú allir hommar eins og allir blökkumenn geta sungið, ekki satt? • Ég hefði líka þurft að vita að ég átti aldrei að taka til mín og sitja undir fyllirísrausi þáverandi þingmanns sem sagði mér í óspurðum fréttum á bar seint um kvöld að ég hefði margt til brunns að bera sem góður frambjóðandi til þings en tók svo fram í því sem hann taldi vináttu og umhyggju fyrir mér að ég myndi samt aldrei ná langt á stjórnmálasviðinu því röddin í mér væri svolítið hommaleg og kjósendur hafni þannig fólki. Þannig væri bara staðan í raunveruleikanum þrátt fyrir allt og vinur sá er til vamms segir. • Hefði ég vitað þetta þá hefði ég líka vitað þegar ég hóf störf sem sjónvarpsfréttamaður að það var með öllu ónauðsynlegt á árunum fyrir barferðina þar sem ég hitti þingmanninn, að ritskoða sjálfan mig eftir flesta fréttatíma með því að fara í gegnum upptökur ofurgagnrýnum augum og þjálfa mig í að pússa burt alla vankanta sem hommalegir gátu talist eins og kvenlegan blæ í raddbeitingu, handahreyfingar og fleira. Allt til þess eins að vera meira eins og djúpradda fréttaþulirnir í aðalfréttatímanum og hörkutólin í Kastljósi enda rötuðu slík tækifæri ekki til mín nema í eitt einasta sinn í mýflugumynd, stutt afleysing í mannahallæri. • Ég hefði líka þurft að vita að ég yrði kominn á háskólaaldur þegar ég loks í skjóli stórborgarinnar New York gat keypt fallega myndskreytta og faglega framsetta kynfræðslubók sem hét Gay Sex og gat skoðað hana í næði með tveimur bestu vinkonum mínum og fyrst uppgötvað hvernig það fer í rauninni fram en það er mjög á skjön við ímynd almennings og allt galgopagrín. Þær sögðu mér að ég minnti þær rúmlega tvítugur á hvernig þær voru þrettán ára að skoða Kvennafræðarann úti í horni á skólabókasafninu. • Ég hefði líka viljað vita að það yrði ekki fyrr en á mennta- og háskólaárum mínum sem ég fengi loks fyrst að sjá sjónvarpsþætti og kvikmyndir í almannarýminu sem sýndu mér homma eins og fullgilda manneskju og kynveru en ekki sem sprelligosa og kjána – hlutverkið sem félagsmótunin hefur kennt okkur hommunum mörgum að leika í eigin lífi til að komast af – en það hefði jafnframt þurft að vara mig við að í kvikmyndahúsum þyrfti ég að búa mig undir hiss, fliss og ojjj annarra gesta í svartamyrkrinu meðan á sýnjngu stendur. Ískalt flissið sem tryggir að ég gleymi því aldrei að virðingin fyrir ástarsögunni er á hvíta tjaldinu en ekki í raunveruleikanum þar sem ég bý. Ég hefði þurft að vita þetta allt og svo margt annað, að ég yrði viðskila við Þjóðkirkjuna um langt skeið og þyrfti að finna til vanmáttar þar á björtum gleðidegi nánustu vina því þau máttu gifta sig en ekki ég, að ég myndi sjá ungan strák ganga niðurbrotinn út af Þjóðskrá í kringum 2000 af því að hann mátti ekki skrá sig í sambúð og mér leið eins og svikara af því ég að ég var ekki kominn út úr skápnum og gat þess vegna ekki farið á eftir honum og hughreyst hann. Þetta er bara brotabrot af mun lengri lista. Undir regnboganum Að tilheyra samfélagi regnbogans er á margan hátt dásamlegt, nokkuð sem ég tilheyri með stolti í dag. Elska og virði. Eftir á að hyggja er þessi erfiða lífsreynsla þakkarverð enda grunnur að mörgum af mínum helstu styrkleikum sem fullorðins manns. Ég get loks staðið í miðju lífsins frjáls og sterkur. En það tekur á að lifa lífinu þannig að manni finnist maður á jarðsprengjusvæði alla daga og þurfi stöðugt að vera varðbergi og viðbúinn því að fólk meðvitað eða ómeðvitað smætti mann í hommaboxið, misskilji mann og særi með vanhugsuðum orðum sem afhjúpa félagsmótun okkar allra á liðnum áratugum. Við erum nefnilega öll fórnarlömb fáfræðinnar sem mótaði okkur þá með hlekki fortíðar fasta um að minnsta kosti annan ökklann. Regnbogasamfélagið er líka flókið og þar myndast líka goggunarröð. Við erum hvorki fullkomin né betri en annað fólk. Við eigum tiltekna þætti sameiginlega en að öðru leyti erum við gjörólík. Undir regnboganum getur myndast samkeppni um hvert jafnasta dýrið á býlinu sé og við skorum hátt í áhættuhópum hvað varðar alkóhólisma og fíkn, þunglyndi, kvíða og sjálfsvíg. Við göngum sum um með stóra varnarskildi í mannlegum samskiptum sem geta verið alvöruleysi, kaldhæðni, hroki og yfirlæti, sýndar- og yfirborðsmennska, æsku- og líkamsdýrkun og þessir skildir verja okkur fyrir djúpum tengslum, eigin viðkvæmni og öllu sem snertir kjarna máls. Stundum eigum við erfitt með að mynda heilbrigð vinatengsl okkar á milli því sameiginlegar rætur okkar liggja í sameiginlegu trauma og speglum þar hvort annað án möguleika til samhjálpar. Þetta er mynd og endurlit sem við þolum ekki sjá og hliðstætt því sem gerist í vanvirkum stórfjölskyldum þar sem drykkjusýki, kúgun og yfirgangur ömmu og afa beyglar og mengar innbyrðis tengsl barna og barnabarna þeirra um ókomin ár vegna þess að sameiginlegt minni fjölskyldunnar snýst um harm, ljótar, sárar og vondar upplifanir, þögn og þvingaða samstöðu um fjölskylduleyndarmálin. Og því miður bendir margt til þess að upplýsingaóreiðuherferðin sem nú er háð gegn transfólki og skólafræðslu Samtakanna ‘78 sé studd af og brotin uppi af hluta af okkar eigin fólki, einkum þröngum hópi samkynhneigðra karlmanna. Það er visst sjokk en hvað veldur? Að ráðast á sinn eigin Hommar rétt eins og aðrir karlmenn hafa alast upp í eitraðri karlmennsku og tengdum hugmyndum.Það er vel þekkt að hommar upplifi sjálfshatur og -fyrirlitningu í tengslum við karlmennsku sína. Þeir sem festast þar geta þannig komið út úr skápnum en barist að öðru leyti áfram gegn öllu sem snertir málefni hópsins og beitt sér þannig í umræðu um hann. Þeir loka sig inni í búbblu því þeir vilja ekki láta pota í opið sár. Þegar verst lætur verða þeir eins og hænan rétt undir miðju goggunarraðar sem vill komast í mjúkinn hjá aðalhænunni með því að gerast herskáasta hænan í öllum kofanum og ráðast harkalegar en aðrar á veikustu hænuna til að forða sér frá sömu örlögum í von um að verða meðtekin af ráðandi öflum. Aðeins betri en skítugu hænurnar. Og með þessu vill hún upplifa fullt sjálfvirði á ný. Þetta er vesalings hænan sem á mest bágt og þarf mestu aðstoðina. Öruggt upplýsingaskjól lykilatriði Ég er stoltur af þátttöku minni sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ við gerð þjónustusamningsins við Samtökin ‘78. Og ég stend fyllilega með honum og einmitt vegna þess að ég tilheyri regnbogasamfélaginu reifaði ég í aðdragandum gagnrýnar spurningar um jafnræði við önnur sambærileg félög, hvort heppilegt væri að mannréttindasamtök sem þurfa að gagnrýna stjórnvöld séu um leið háð þeim með fjármagn og fleira. Þá umræðu þurfti að taka, hér var hvorki stokkið til í hvatvísi né pólitískri tækifærismennsku. En þegar tveir mætir ótengdir menn, báðir feður skólabarna búsettir í Garðabæ, sendu mér tölvupósta óháð þessari umræðu um samninginn og sögðu mér í mikilli einlægni af aðstæðum og daglegu lífi barna sinna sem eru trans í skólum bæjarins þá hvarf miðaldra bæjarfulltrúinn með bindið sem vildi vanda stjórnsýsluna og póstinn las níu ára strákurinn sem vildi skemmta jafnöldrum sínum með því að leika hliðarsjálf Elsu Lund en uppskar allt annað. Stundum heyrum við mestu skynsemina með því að hlusta á hjartað. Þessa fræðslu þarf sárlega. Við erum blessunarlega ekki lengur að lifa árið 1980 þar sem við getum stýrt því hvaða bækur börn lesa eða hvað þau horfa á í sjónvarpinu. Þau hafa óheftan aðgang að netinu og öllu sem þar þrífst og vita fullvel óháð því sem sagt er í skólanum að til er trans, hán, kvár, samkynhneigð og hvað annað. Þau hins vegar fá þar líka óábyrgar og mannskemmandi upplýsingar af samfélagsmiðlum og úr klámi. Ef aldrei er rætt við þau um það og öruggt skjól skapað til upplýstrar umræðu þar sem þau fá að tala í raunheimum við raunverulegt fólk sem sætir ábyrgð á sinni fræðslu þá fyrst er voðinn vís. Þá fara unglingspiltar yfir mörk stelpna við fyrstu samfarir því þeir hafa bara séð brenglað klám á netinu og halda að það sé kynlíf. Og kynferðisbrot verða grófari en fyrr og enginn skilur af hverju. Veljum þá heldur ábyrga og örugga umræðu og fræðslu, því börnin og ungmennin skilja betur og meira og lífið mun alltaf hvort eð er sýna þeim sannleikann. Rétt að lokum Sumt fólk segist ægilega þreytt á þessari umræðu allri um málefni hinsegin fólks og vill losna við hana. Það er ég líka enda hef ég hlustað á hana og lifað á eigin skinni allt mitt líf. Stöðugt stapp um einfaldan sannleik er hundleiðinlegt en nauðsynlegt þegar sagan endurtekur sig án lærdóms. En ávinningur er til staðar og ég vil ljúka þessum skrifum með sannri stuttri sögu sem staðfestir það. Lítill strákur hvers fjölskyldu ég er venslaður, býr í íslenskri sveit þar sem ekkert er um Regnbogafólk í grennd sem hann getur litið til eða hermt eftir. Allt gengur þar sinn vanagang eins og íslenska sveitasamfélagið hefur gert um aldir. Þessi strákur hefur viljað frá því hann var bara rétt farinn að ganga og tala klæðast kjólum, safna hári og leika sér með dót sem áður taldist stelpudót. Foreldrar hans tóku þá ákvörðun að koma engri skömm inn hjá honum með þetta og öll stórfjölskyldan var upplýst, þ.m.t ég. Og þess vegna hefur hann til dæmis fengið senjórítukjóla frá Spáni í gjöf frá vinum og ættmennum á faraldsfæti og hann alveg tárast af gleði. Á stórfjölskyldumóti fyrir fáeinum árum bauð hann upp á naglalökkunarþjónustu á spottprís og bæði karlarnir og konurnar skiptu við unga snyrtifræðinginn og litríkar neglurnar á hvers manns hendi lífguðu upp á samkomuna. En það gerðist meira því þrír frændur litla stráksins, allt rígfullorðnir rammíslenskir bændur og iðnaðarmenn, mættu í kjólum honum til samlætis. Myndirnar frá þessu frábæra fjölskyldumóti geisla allar af birtu, hamingju og gleði, ekki síst í augum og andliti þess unga sem hefur á sinni stuttu ævi til þessa kennt okkur hinum meira um margslungna tilveruna en ýmsir aðrir sem fylgdu reglunum gerðu á heilli lífstíð. Nú veit maður ekkert með ung börn hvenær eitt endar og annað tekur við, til þess þarf pilturinn ungi þroska, svigrúm og frelsi til frekari sjálfsuppgötvunar. Það hefur hann haft en nú þegar hann er að detta á grunnskólaaldur getur maður aðeins vonað og beðið að hann fái þar að sýna öllum fjaðrirnar sínar eins þær eru af Guði gerðar frjáls undan áreiti og einelti. Það getur gerst með ábyrgri fræðslu snemma. En eitt hefur hann þó nú þegar, hann veit að á sínu heimili og með sinni stórfjölskyldu er hann elskaður eins og hann er. Frumbernskan er björt. Hann þarf aldrei að fela neitt eða upplifa skömm þar sem við erum og vera hans hér í þessum heimi hefur gert hænsnakofann okkar allra að betri, litríkari og fallegri stað þar sem hver má njóta sín á eigin forsendum því það er friður og öryggi fyrir öll í okkar litla hænsnakofa. – Um þetta snýst allt málið. Svo óskaplega einfalt þegar allt kemur til alls. Í hvaða hænsnakofa vilt þú búa?
Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite Skoðun
Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun
Skoðun Lýðræðið í hættu – stjórnmálaflokkar án lýðræðislegrar uppbyggingar Svanur Guðmundsson skrifar
Skoðun Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir skrifar
Skoðun Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite skrifar
Skoðun Framsækin ríkisstjórn í umhverfis- og auðlindamálum: Nýi stjórnarsáttmálinn. Stefán Jón Hafstein skrifar
Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson skrifar
Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen skrifar
Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson skrifar
Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir skrifar
Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite Skoðun
Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun