Þýska blaðið Bild greinir frá því að Donyell Malen, hollenskur leikmaður Dortmund, sé á óskalista Klopps. Hann horfi á kantmanninn sem góðan varamann fyrir Mohamed Salah og svo jafnvel sem eftirmann Egyptans.
Malen gekk í raðir Dortmund frá PSV Eindhoven fyrir tveimur árum. Hann er samningsbundinn þýska félaginu til 2026 og talið er að Liverpool þurfi að greiða Dortmund að minnsta kosti 52 milljónir punda til að fá Malen.
Hollendingurinn hefur byrjað tímabilið af krafti og skorað fjögur mörk og lagt upp tvö í fyrstu sjö leikjum Dortmund. Á síðasta tímabili skoraði Malen tíu mörk fyrir Dortmund í öllum keppnum.
Malen þekkir ágætlega til á Englandi en hann var í unglingaakademíu Arsenal á árunum 2015-17. Þaðan var hann seldur til PSV þar sem hann skoraði 55 mörk í 116 leikjum.
Hinn 24 ára Malen hefur leikið 23 leiki fyrir hollenska landsliðið og skorað fimm mörk.