Sancho er úti í kuldanum hjá Manchester United eftir að hafa gagnrýnt Erik ten Hag, knattspyrnustjóra liðsins, eftir að hann var ekki í leikmannahóp þess gegn Arsenal. Sancho hefur verið meinað að æfa með aðalliði United og má ekki nota aðstöðu þess á æfingasvæðinu. Þess í stað verður hann að borða með leikmönnum unglingaliðsins.
United keypti Sancho frá Dortmund fyrir tveimur árum. Hann spilaði frábærlega fyrir þýska félagið og hefur verið orðaður við það undanfarna daga.
Samkvæmt Bild eru forráðamenn Dortmund þó ekki vissir um að fá týnda soninn heim. Þegar Sancho lék með Dortmund hékk hann í tölvunni langt fram eftir nóttu og svaf ekki nóg. Hann hefur haldið því áfram eftir að hann kom til United.
Sancho er heldur ekki sá stundvísasti og mætti reglulega seint á æfingar hjá Dortmund og átti það til að bregða sér frá í tvo eða þrjá daga.
United vill ekki lána Sancho heldur selja hann. Talið er að félagið muni setja rúmlega fimmtíu milljóna punda verðmiða á kantmanninn sem hefur leikið 23 landsleiki fyrir England.