Valgeir Lunddal sat allan tímann á varamannabekknum hjá Häcken í dag en Davíð Kristján Ólafsson var í byrjunarliði Kalmar. Häcken á í harðri toppbaráttu og þurfti nauðsynlega á sigri að halda eftir að Malmö FF vann sigur í gær og náði fjögurra stiga forskoti á toppnum.
Það tókst hins vegar ekki. Kalmar vann 1-0 sigur og Häcken er því enn í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir Elfsborg sem á leik til góða og fimm stigum á eftir Malmö FF.
Kolbeinn Þórðarson var í byrjunarliði IFK Gautaborg sem virðist vera að tryggja sæti sitt í deildinni eftir slaka byrjun. Liðið var í fallsæti fyrir ekki svo löngu síðan en hefur stigið upp að undanförnu og spilað vel.
Í dag vann liðið 1-0 útisigur á Mjällby þar sem Guðmundur Baldvin Nökkvason kom inn af bekknum þegar um hálftími var eftir. Gautaborg er nú komið upp í 10. sæti deildarinnar og er sex stigum frá umspilssæti.
Patrik og félagar í efsta sæti
Brynjar Ingi Bjarnason spilaði allan leikinn í vörn HamKam sem gerði 1-1 jafntefli við Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni. Þá var Patrik Sigurður Gunnarsson í marki Viking sem vann 4-3 sigur á Sandefjord á heimavelli. Með sigrinum lyfti Viking sér upp í efsta sæti norsku deildarinnar.
Að lokum var Ísak Snær Þorvaldsson í liði Rosenborg sem tapaði stórt gegn Lilleström á útivelli. Rosenborg er um miðja deild en mikið hefur gengið á hjá liðinu á tímabilinu.