Glódís hefur verið í herbúðum Bayern frá árinu 2021 og varð þýskur meistari með liðinu í vor. Þessi 28 ára miðvörður var gerður að fyrirliða þýska stórveldisins í sumar og leikur lykilhlutverk með liðinu, en hún var eini útileikmaðurinn sem spilaði hverja einustu mínútu í þýsku úrvalsdeildinni fyrir félagið á síðasta tímabili.
Bayern greinir frá tíðindunum á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum sínum þar sem Glódís kveðst vera virkilega ánægð með að vera búin að framlengja við félagið.
The captain is here to stay! ♥️#MiaSanMia #FCBayern @glodisperla pic.twitter.com/qEX28ztYcY
— FC Bayern Frauen (@FCBfrauen) September 20, 2023
„Við erum lögð af stað í virkilega áhugavert og skemmtilegt ferðalag og það er það sem ég vil vera hluti af,“ sagði Glódís á heimasíðu Bayern.
„Það er frábært að ég geti verið hérna í þrjú ár í viðbót. Ég er virkilega glöð og vil reyna að leggja eins mikið af mörkum og ég get fyrir liðið.“
Glódís hefur leikið 39 deildarleiki fyrir Bayern München og skorað í þeim fimm mörk, sem verður að teljast ansi gott fyrir miðvörð. Þá á hún einnig að baki 102 leiki fyrir íslenska landsliðið og verður í eldlínunni þegar stelpurnar okkar taka á móti Wales á Laugardalsvelli næstkomandi föstudag.