Enn hefur ekki tekist að koma skemmtiferðaskipinu Ocean Explorer á flot. Skipið strandaði við austurströnd Grænlands í fyrradag. Rannsóknarskip á vegum Náttúruvísindastofnunar Grænlands hélt í átt að skipinu fyrr í dag til að reyna að draga það, en án árangurs.
Yfirmaður Joint Arctic Command, grænlenska landhelgisgæslan, segir skemmtiferðaskipið því enn fast í Alpefjord. Knud Rasmussen, skip danska sjóhersins, er á leiðinni til að reyna að losa það en samkvæmt danska miðlinum DR verður það ekki komið á vettvang fyrr en á föstudag.
Alls eru 206 um borð í skipinu og hafa verið föst um borð frá því að skipið strandaði við strendur Grænlands á mánudag. Enginn slasaðist þegar skipið strandaði og skipið er ekki skemmt.
Varðskipið Þór var í biðstöðu fyrr í dag vegna strandsins en björgunarmiðstöðin í Nuuk tilkynnti þeim svo síðdegis að ekki væri þörf á aðstoð þeirra.