Sameinuðu þjóðirnar og Erdogan höfðu milligöngu um samkomulag á sem gerðu Úkraínumönnum kleift að flytja korn og annan varning út frá þremur höfnum við Svartahaf þrátt fyrir stríðið í fyrra. Markmiðið var að forða matvælaskorti í ríkjum Afríku, Miðausturlanda og Asíu sem eru háð korni frá Úkraínu og Rússlandi.
Pútín neitaði að framlengja samkomulagið í júlí. Síðan þá hafa Rússar ráðist ítrekað á hafnir og innviði sem tengjast kornútflutningi Úkraínumanna. Síðast í morgun sagðist úkraínski flugherinn hafa stöðvað 23 af 32 rússneskum drónum sem réðust á Odesa og Dnipropetrovsk-héruð. Reuters-fréttastofan segir að vöruhús og verksmiðjur hafi skemmst og kviknaði hafi í íbúðarbyggingum þegar brak úr drónunum hrapaði.
Pútín og Erdogan funda í Sotsjí við Svartahaf þar sem Rússlandsforseti á setur í dag. Samband þeirra er sagt gott þrátt fyrir að Erdogan hafi reitt Rússa til reiði með því að leyfa fimm úkraínskum herforingjum að snúa heim í sumar. Rússar tóku þá til fanga en samþykktu að afhenda þá Tyrkjum með því skilyrði að þeir yrðu þar á meðan stríðið geisaði enn.
Utanríkisráðherrar ríkjanna undirbjuggu jarðveginn fyrir fundinn á fimmtudag. Rússar eru þar sagði hafa lagt fram kröfur á hendur vestrænum ríkjum sem eru skilyrði þeirra fyrir því að kornflutningar geti haldið áfram um Svartahaf.