
Hefðbundin fokverkefni, segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
„Trampólín eru að fjúka, byggingarefni, einhverjir ferðavagnar eru að snúast og fara á hliðina,“ segir Jón Þór í samtali við fréttastofu. Enn hafi ekkert stórtjón orðið.
Annasamt hefur verið hjá björgunarsveitum á Suðurnesjum. Í kvöld voru tónleikar Ljósanætur haldnir ásamt kjötsúpuveislu. Að sögn Haraldar Haraldssonar aðgerðarstjóra hjá björgunarsveitinni Suðurnes hefur dagskráin gengið áfallalaust fyrir sig. Fregnir bárust af því í kvöld að tæki á tívolísvæði hátíðarinnar hafi fokið um koll.


„Það hafa verið þónokkuð af verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í kjölfarið en veðrið á Suðurnesjum hefur gengið niður á meðan.“
Tré hafi fallið í Vesturbæ á garðskúr, ásamt hefðbundnu trampólín- og byggingarefnafoki.
„Þetta er alveg Þorlákshöfn, Akranes, Borganes, Suðurnes, Hvolsvöllur. Hústjöld hafa fokið og ýmislegt fleira.“
Örmagnaðist á hálendinu
Stærsta verkefni björgunarsveita var hins vegar á hálendinu. Sækja þurfti göngumenn á leið þeirra í Jökultungum, milli Hrafntinnuskers og Álftavatns.
„Einn örmagnaðist þar. Hann hafði verið nokkra daga á göngu, sennilega í erfiðari aðstæðum en gert var ráð fyrir. Þeir stoppuðu í Jökultungunum og síðasti hálendisvaktahópurinn okkar er að detta til þeirra, eins langt og þau komast á bíl og labba nú síðasta spottann,“ segir Jón Þór.
„Spáin gerði alveg ráð fyrir þessu, þetta er bara að ganga eftir.“