Hér erum við að tala um nýtt fyrirtæki í Vestmannaeyjum, „Eyjascooter”, sem þau Hreiðar Örn Svansson og Ingibjörg Bryngeirsdóttir, sem er fædd og uppalinn í Vestmannaeyjum eiga. Þau bjóða upp á fjölbreyttar og skemmtilegar ferðir um Vestmannaeyjar á skutlunum en það, sem er svo frábært við þær er að þú situr og stýrir skutlunni þannig.
„Við hjá „Eyjascooter” förum í ferðir með leiðsögn á stórum rafskutlum með sætum, sem ég hannaði sjálfur á hjólin. Þetta er alveg ofboðslega skemmtilegt og er að slá í gegn hjá okkur,” segir Hreiðar.
Hvers konar ferðir eruð þið að bjóða upp á?
„Það er allt frá klukkutíma ferðum og upp í þriggja tíma sérhannaðar ferðir fyrir fólk, bara hvað viltu sjá, við sýnum þér það,” segir Hreiðar og hlær.
Hreiðar og Ingibjörg segir að það séu aðallega erlendir ferðamenn, sem eru að skoða sig um í Vestmannaeyjum, sem panta ferðir hjá þeim og að Bandaríkjamenn hafi verið stærsti viðskiptahópurinn í sumar.
„Þeim finnst þetta æðislegt. Ég hef ekki lent í neinum enn þá sem hefur sagt eitthvað neikvætt um þetta. Það fara allir brosandi í burtu,” segir Ingibjörg.

Í haust verður boðið upp á norðurljósaferðir á rafskutlunum en þegar hálka og veturinn kemur þá verður lokað og byrjað aftur með ferðirnar næsta vor.
Og þetta er náttúrulega mjög umhverfisvænt?
“Já, þetta er grænt eins og við segjum af því að þetta er rafmagn. Þú heyrir ekkert hljóð og engan hávaða þannig að þú bara keyrir í náttúrunni og nýtur hljóðsins og nýtur þess bara að vera í umhverfinu. Þið viljið ekki missa af þessu, komið með okkur í ferð, þetta er æðislegt,” bætir Ingibjörg við.
