Þegar spænsku leikmennirnir tóku á móti gullmedalíunum eftir 1-0 sigurinn á Englendingum í úrslitaleik HM í gær kyssi Rubiales Hermoso beint á munninn.
Kossinn hefur vakið mikla athygli. Fyrst sagðist Hermoso vera ósátt við hann en dró síðan í land og bar blak af Rubiales. „Þetta gerðist bara í hita augnabliksins sökum þeirrrar gríðarlegu ánægju sem fylgir því að vinna heimsmeistaratitilinn,“ segir Hermoso í yfirlýsingu sem AFP fréttaveitunni barst frá spænska knattspyrnusambandinu.
„Við forsetinn eigum í góðu sambandi. Hegðun hans, gagnvart okkur öllum, hefur verið framúrskarandi. Þetta var bara hans leið til þess að sýna ástúð og þakklæti.“
Sjálfur segist Rubiales ekki hafa gert neitt rangt og fór mikinn í viðtali við Radio Marca þar sem hann baunaði á þá sem hafa gagnrýnt hann fyrir kossinn alræmda.
„Kossinn með Jenni? Það eru hálfvitar alls staðar. Þegar fólk sýnir smá ástúð er ekki hægt að hlusta á hálfvitana. Við erum heimsmeistarar. Ég held mig við það,“ sagði Rubiales. Við sama tón kvað í viðtali við El Partidazo.
„Við gefum kjaftæðinu ekki gaum. Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum nenni ég ekki meira kjaftæði og fleiri hálfvitum. Hunsum þetta og njótum okkar. Ekki segja mér frá hálfvitum sem sjá ekkert jákvætt. Það var ekkert illt í þessu. Leyfum hálfvitunum að bulla áfram. Það eru til fleiri hálfvitar en gluggar. Einbeitum okkur að þeim sem eru ekki fífl.“
Hermoso klúðraði vítaspyrnu í úrslitaleiknum en það kom ekki að sök. Mark Olgu Carmona tryggði Spánverjum sinn fyrsta heimsmeistaratitil í kvennaflokki.