Fiskidagurinn mikli var haldinn hátíðlegur á Dalvík um helgina. Ljóst var að mikil eftirvænting var fyrir hátíðarhöldunum þar sem hún hefur legið í dvala síðan árið 2019. Fjöldi tónlistarfólks kom fram á Fiskidagstónleikunum sem mörkuðu hápunkt hátíðarinnar.
Má þar nefna Diljá Pétursdóttur, Eirík Hauksson, Diddú, Herbert Guðmundsson, Selmu Björnsdóttur, Friðrik Ómar og fleiri. Þá stigu félagarnir Auddi og Steindi einnig á svið og fluttu nokkur af sínum vinsælustu lögum.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var einnig á meðal þeirra sem stigu á svið. Hún tók lagið The Best með Tinu Turner. Um er að ræða eitt vinsælusta lag söngkonunnar sem lést fyrr á árinu, 83 ára að aldri.
Kristinn Magnússon fangaði söng Ingu á myndband sem sjá má hér fyrir neðan.
Inga ræddi um sönginn í viðtali í Bítinu í morgun. Þar segist hún ekki geta lýst því hvernig það var að koma fram, svo frábært var það.
„Ég er náttúrulega algjör sviðsrotta. Ég á bara hvergi annars staðar heima, svei mér þá. Ég elska þetta og hef alltaf gert.“
Þá segir hún að Friðrik Ómar hafi fengið sig til að taka lagið á tónleikunum. „Ég náttúrulega segi bara jú við öllu.“
Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem Inga lætur sönghæfileika sína skína. Hún tók til að mynda jólalagið Ég og þú í Kryddsíld Stöðvar 2 á síðasta ári.