Átaksverkefnið Verum vakandi hefur verið í gangi frá því í fyrra en þar er sérstök áhersla lögð á ofbeldisforvarnir á skemmtanalífinu en í því er fólk hvatt il þess að fylgjast vel með öðrum og að láta vita ef það sér eitthvað sem ekki er í lagi. Verkefnastjóri segir áríðandi að hafa þetta í huga um helgina þegar fólk safnast saman víða um land.
„Við hvetjum til þess að fólk skemmti sér vel og leggjum áherslu á góða skemmtun og góð skemmtun getur aldrei falið í sér ofbeldi.“
Eygló segir þetta eiga við um alla hópa en að sérstaklega þurfi að huga að ungu fólki. Af tilkynntum kynferðisbrotum á þessu ári hafi brotaþolar verið undir 18 ára í 42 prósent tilfella.
„Það er töluvert lágur meðalaldur hjá brotaþolum og það getur verið tíu til fimmtán ára aldursmunur á brotaþola og þeirra sem eru síðan ásakaðir í kynferðisbrotamálum. Það er alltaf þannig að það er ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref í skemmtanalífinu um verslunarmannahelgina og ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að það í gildi lög sem snúa að samþykki, að fá samþykki frá fólki og einstaklingur sem er mjög mikið undir áhrifum áfengis getur einfaldlega ekki veitt samþykki.“
Eygló segir að miklar upplýsingar fyrir bæði ofbeldismenn og brotaþola sé að finna á netinu og nefnir til dæmis vefsíðuna 112.is og 112 appið.
„Það er hægt að fá samband við lögregluna og alla aðra viðbragðsaðila þar í gegn,“ segir Eygló.
Eigi alltaf við
Hún segir að þessar ráðleggingar eigi ekki bara við um helgina því sem dæmi séu stórar hátíðir yfirvofandi í ágúst, Hinsegin dagar og Menningarnótt, þar sem fólk þurfi einnig að huga að þessu.
„Ef við sjáum eitthvað sem við höfum áhyggjur af, að það sé verið að fara yfir mörk, að fólk leiti aðstoðar. Hafi samband við gæslu, dyraverði, lögreglu eða aðra sem geta hjálpað, og að sjálfsögðu, ef hægt er, að reyna að koma sér út úr hættulegum aðstæðum.“
Hvað varðar ráðleggingar til ofbeldismanna, eða þeirra sem hafa hug á því, eru leiðbeiningarnar skýrar.
„Ekki beita ofbeldi. Ég held að Ásgeir hjá Innipúkanum hafi sagt það ágætlega í viðtali í gær að þeir sem hafa eða hafa áhuga á að beita ofbeldi séu þá bara best komnir heima hjá sér, einir.“