Í svörunum sem birt eru á vef bankans segir að samningur sem gerður var við Birnu um starfslok sé í fullu samræmi við ráðningarsamning hennar. Hann rúmist innan starfskjarastefnu bankans sem samþykkt var á síðasta aðalfundi og gildandi lög um fjármálafyrirtæki.
Háværar kröfur voru um að starfslokasamningur Birnu yrði birtur strax og hún sagði upp störfum, í upphafi júlímánaðar. Við tilefnið sagði stjórnarformaður bankans að stjórnin hefði ekki tekið afstöðu til málsins en Birna sagði upp störfum sem bankastjóri þann 28. júní síðastliðinn.
„Ráðningarsamningurinn kvað á um tólf mánaða uppsagnarfrest og er gjaldfærsla vegna launa og hlunninda 56,6 milljónir króna. Fara þær greiðslur fram mánaðarlega yfir tólf mánaða tímabil í formi launagreiðslna,“ segir í svörum stjórnar bankans. Til samanburðar fékk Höskuldur Ólafsson, þáverandi bankastjóri Arion banka 150 milljónir króna þegar hann sagði upp störfum í apríl árið 2019.
Í svörum stjórnar Íslandsbanka til hluthafa er jafnframt tekið fram að Birna haldi auk þess réttindum varðandi orlof og lífeyrissjóðsgreiðslur á tólf mánaða tímabili. Önnur ákvæði eru jafnframt stöðluð og í samræmi við ráðningarsamning og viðeigandi kjarasamninga, að því er segir á vef bankans.