Þetta segir í færslu Utanríkisráðuneytisins á Facebook.
Landhelgisgæsla Íslands leiddi framkvæmd heimsóknarinnar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið í samræmi við settar verklagsreglur.
Samkvæmt tilkynningunni gekk vel að flytja mennina um borð. Var það gert nokkra kílómetra utan við Helguvík. Kafbáturinn er orrustukafbátur af Virginia-gerð og ber því ekki kjarnavopn.

Kafbátaheimsóknir verði tíðari
Þetta er í annað sinn sem kjarnorkuknúinn kafbátur bandaríska sjóhersins kemur í þjónustuheimsókn í íslenska landhelgi frá 18. apríl síðastliðinn.
Þá tilkynnti utanríkisráðherra að slíkum kafbátum yrði heimilað að hafa stutta viðkomu úti fyrir ströndum Íslands til að taka kost og skipta út hluta áhafnar.
Ákvörðunin var þá sögð vera liður í stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi.
„Þjónustuheimsóknirnar stuðla að því að efla samfellt og virkt kafbátaeftirlit bandalagsríkja sem tryggir betri stöðuvitund og eykur öryggi neðansjávarinnviða á borð við sæstrengi á hafsvæðinu í kringum Ísland. Tíðni heimsókna mun ráðast af þörf hverju sinni,“ sagði í tilkynningu sem birtist 18. apríl á vef Stjórnarráðsins.