Allt fólkið er ákært í átta liðum fyrir fals, svik og fyrir að hafa skrifað undir skjöl um að þau væru „réttkjörnir og hæfir“ kjörmenn í forsetakosningunum í Michigan árið 2020.
AP fréttaveitan segir fólkið standa frammi fyrir allt að fjórtán ára fangelsisvist. Í hópnum eru leiðtogar Repúblikanaflokksins í Michigan.
„Þeir voru ekki réttkjörnir né hæfir kjörmenn og hinir stefndu vissu það,“ sagði Dana Nessel, áðurnefndur ríkissaksóknari, í gær. Hún sagði þau hafa brotið af sér í þeirri von um að geta veitt þeim frambjóðanda sem þau styddu kjörmenn Michigan, í stað þess sem kjósendur ríkisins kusu.
Nessel sagði fólkið hafa grafið undan trúnni á heilindi kosninga í Michigan. Þau hafi sömuleiðis brotið kosningalög í ríkinu.
Trump og stuðningsmenn hans standa frammi fyrir fjölmörgum ákærum og lögsóknum vegna tilrauna þeirra til að snúa úrslitum kosninganna.
Kjósa kjörmenn, ekki forseta
Forsetakosningar í Bandaríkjunum virka á þann veg að kjósendur ríkja kjósa í raun ekki forseta, heldur svokallaða kjörmenn. Þeir eru alltaf 538 talsins og deilast milli ríkja eftir fjölda þingmanna, en sá fjöldi tekur mið af íbúafjölda. Kjörmennirnir eiga svo að velja þá forsetaframbjóðendur sem kjósendurnir völdu.
Í flestum ríkjum fær sá forsetaframbjóðandi sem vinnur þar alla kjörmenn ríkjanna en í nokkrum fá báðir hlutfallslegan fjölda miðað við atkvæði.
Árið 2020 fékk Joe Biden, forseti, 50,6 prósent atkvæða í Michigan og þar með alla sextán kjörmenn ríkisins. Donald Trump, fyrrverandi forseti, fékk 47,8 prósent atkvæða.
Sjá einnig: Kjörmenn í barátturíkjum greiða Biden atkvæði sín
Stuðningsmenn Trumps gripu til sambærilegra í sex öðrum ríkjum. Þar skrifuðu þeir undir vottorð þar sem því var haldið fram að Trump hefði sigrað í þessum ríkjum en ekki Biden. Vottorð þessi voru hunsuð en viðleitni þessara stuðningsmanna Trumps hefur verið til rannsóknar.
Hin ríkin eru Arisóna, Georgía, Nýja Mexíkó, Nevada, Pennsylvanía og Wisconsin. Verið er að rannsaka hina fölsku kjörmenn í nokkrum þessara ríkja en ekki í þeim öllum.