Gert er ráð fyrir að 46 stiga hiti mælist á ítölsku eyjunni Sardiníu síðar í dag og er varað við því að íbúar í vissum hlutum Ítalíu þurfi að þola ákafan hita í tíu daga til viðbótar.
Íbúar Spánar hafa glímt við samfelldar hitabylgjur að undanförnu og náði hiti 44 gráðum í suðurhluta landsins í gær. Á sama tíma hafa gróðureldar logað á spænsku eyjunni La Palma og á meginlandi Grikklands.

Hvert hitametið á fætur öðru
„Hitastig í Norður-Ameríku, Asíu, Norður-Afríku og við Miðjarðarhafið nær yfir 40 gráður í fleiri daga í þessari viku á sama tíma og hitabylgjan færist í aukana,“ segir í yfirlýsingu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni sem vísað er til í umfjöllun Breska ríkisútvarpsins. Stofnunin segir öfgafull veðurmynstur undirstrika mikilvægi þess að þjóðir heims grípi til aukinna aðgerða til að bregðast við loftslagskrísunni.
Meðallandhiti á heimsvísu hefur nú slegið fyrra hitamet fimmtán daga í röð. Það met féll í júlí í fyrra og því skammt stórra högga á milli. Rannsókn bendir til þess að 61 þúsund einstaklingar hafi látist í Evrópu á síðasta ári í tengslum við hitabylgju sem sló víða hitamet. Þá hafi 166 þúsund einstaklingar látist vegna hita í álfunni á árunum 1998 til 2017.
Code Yikes!!!
— Prof. Eliot Jacobson (@EliotJacobson) July 18, 2023
The planet is now at 15 consecutive days of record global surface temperatures, likely the hottest 15 days in the last 100,000+ years.
Also, today's global temperature of 17.114°C once again breached the Paris agreement, at 1.51°C over the 1850-1900 baseline. pic.twitter.com/SwhP3HPKuR
Í Bandaríkjunum mældist hiti aftur 49 gráður á miðnætti í Dauðadalnum í Kaliforníu. Yfir hundrað slökkviliðsmenn berjast nú við skógarelda í suðurhluta Sviss sem kviknuðu við þorp í kantónunni Valais í gær og breiddist hratt út í nótt. Fyrr í dag var greint frá því að eldur logaði á hundrað hektara svæði.

Snjóaði í Suður-Afríku
Yfirvöld ríkja í Norður-Afríku hvetja fólk til að gera ráðstafanir til að verjast hitanum, á borð við að drekka mikinn vökva og forðast sólina. Hitastig náði 48 gráðum í Alsír og Marokkó í síðustu viku og hefur þar sjaldan mælst hærri. Yfirvöld í Alsír segja útlit fyrir að stingandi hiti muni halda áfram gera fólki lífið leitt í þessari viku.
Meira hefur verið um veðuröfgar á heimsvísu að undanförnu líkt og vísindamenn hafa lengi spáð í tengslum við loftslagsbreytingar og ekki einungis orðið vart við hitabylgjur. Í suðurhluta Afríku er nú kaldara veðurfar en alla jafna og í síðustu viku féll snjór í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í fyrsta skipti í yfir tíu ár. Þá hefur víða borið á miklum flóðum, þar á meðal í Bandaríkjunum og Asíu.