Þetta var þriðja nóttin í röð sem Rússar gera árás á höfuðborgina en á sama tíma hefur leiðtogafundur NATO staðið yfir í Litháen. Rússar notast við íranska Shahed árásardróna í aðgerðum sínum og herstjórn Kænugarðs segir að árásin í nótt hafi verið afar umfangsmikil.
Drónarnir komu inn á höfuðborgarsvæðið úr mismunandi áttum og um tólf þeirra voru skotnir niður áður en þeir hittu skotmörk sín. Brak úr þeim lenti hinsvegar víða og á meðal þeirra sem urðu fyrir því voru nítján ára gömul stúlka og tuttugu og þriggja ára maður. Sá sem lést virðist hafa brunnið inni þegar eldur kom upp í húsi eftir að dróni sprakk á því eftir því sem borgarstjórinn Vitali Klitschko segir á Telegram síðu sinni.