Verulega hefur hægt hefur á jarðhræringum en stærsti skjálftinn síðasta sólarhringinn var rétt eftir klukkan 11 í gærkvöldi og var 4 að stærð. Starfsfólk Veðurstofunnar fundar með almannavörnum klukkan 14 nema eitthvað breytist.
„Í raun og veru erum við ekki að sjá breytingar á nýjustu gögnunum. Það er að hægja á breytingunum sem við sáum dálítið dramatískar og túlkunin er sú að þetta sé komið verulega nærri yfirborði,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, og bætir því við að áhrifasvæðið sem um ræðir nái ekki að GPS-stöðinni sem er í eins eða tveggja kílómetra fjarlægð. Hún segir breytingarnar ekki miklar á nýjustu gögnunum og að hugsanleg túlkun sé að kvikan sé komin verulega nærri yfirborði en að önnur túlkun sé að kvikan sé að hægja á sér.
Frá því að hrinan hófst þann 4. júlí hafa alls mælst um 8.500 skjálftar á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis, sautján hafa verið stærri en fjórir og um 50 yfir þremur.. Einnig hafa kröftugir skjálftar mælst á Reykjaneshrygg við Eldey. Sá stærsti var þar um fimm í morgun og var 4,5 að stærð.
En hvernig tengjast skjálftarnir á þessum tveimur stöðum?
„Þetta eru ekki gikkskálftar við Eldey. Svæðið þarna er líka virkt en þetta getur tengst spennubreytingum á öllum Reykjanesskaganum. Það hefur mikil áhrif þegar svona mikið er í gangi í jörðinni,“ segir Elísabet og að það hafi róast við Eldey.
Hún segir að til skoðunar sé að fara með dróna að svæðinu en að það hafi ekki enn verið tekin ákvörðun um það.
„Við erum í viðbragðsstöðu hér.“
Fréttin og fyrirsögn hafa verið uppfærð.