Búið er að veiða 85 prósent strandveiðikvótans, eða 8.527 tonn. Aðeins 15 prósent eru eftir, eða 1.473 tonn, samkvæmt samantekt Landssambands smábátaeigenda eftir gærdaginn. Miðað við meðalafla á dag til þessa, sem er ríflega 250 tonn, mun potturinn verða uppurinn í næstu viku, en það þýðir að veiðarnar verða þá stöðvaðar.
Strandveiðisjómenn þrýsta á Svandísi Svavarsdóttur, ráðherra sjávarútvegsmála, að auka kvótann enda stefnir núna í stystu vertíð til þessa í sögu strandveiðanna. Óánægjan er sérstaklega mikil meðal smábátaeigenda á norðan- og austanverðu landinu, en þar er aðalveiðitímabilið síðari hluta sumars, í júlí og ágúst.

Þegar listinn yfir aflahæstu hafnir er skoðaður hér fyrir neðan sést að aðeins ein þeirra er á austurhluta landsins, Hornafjörður. Hinar allar eru á vesturhelmingi landsins.
Patreksfjörður er í efsta sæti fiskihafna landsins yfir mestan landaðan afla á strandveiðum sumarsins, með samtals 846,6 tonn eftir fyrstu tvo mánuðina, maí og júní. Patreksfjörður er einnig efstur þegar talinn er fjöldi báta en alls höfðu 72 bátar landað þar afla fyrir helgi.
Sandgerði fylgir fast á eftir í öðru sæti, með 843 tonn, sem 69 bátar höfðu landað. Ólafsvík er í þriðja sæti, með 738 tonn frá 60 bátum, og Bolungarvík er í fjórða sæti með 732 tonn frá 58 bátum. Þessar fjórar hafnir skera sig nokkuð úr.

Athygli vekur að tvær löndunarhafnir, sem ekki teljast til þéttbýlisstaða, ná inn á topplistann. Þannig er Arnarstapi á Snæfellsnesi í fimmta sæti, með 554 tonn frá 50 bátum, og Norðurfjörður í Árneshreppi á Ströndum er í áttunda sæti með 373 tonn frá 31 bát. Það má því vel ímynda sér að talsverð þrengsli hafi verið í þessum litlum höfnum það sem af er sumri.
