„Það er fólk bara liggjandi hérna úti um allt, að njóta og sleikja sólina,“ segir Snorri Björgvin Magnússon, veitingastjóri Duck and Rose, í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.
Snorri segir að fólk sé búið að vera að sleikja sólina á svæðinu síðan staðurinn opnaði í morgun. „Það eru þó nokkrir búnir að vera að spyrja mig hvort ég sé með sólarvörn.“

Þá sé mikið af túristum í bænum. „Maður er farinn að finna fyrir því að skemmtiferðaskipin eru komin til landsins. Fólk stendur þarna í línum nánast.“
Veðrið hefur ekki verið upp á marga fiska á suðvesturhorninu í ár en svo virðist vera sem sumarið hafi loksins fengið minnisblaðið um að kíkja á höfuðborgarsvæðið í dag. Íbúar þökkuðu fyrir sig með því að njóta sólarinnar eins og sjá má á myndum sem ljósmyndari Vísis náði í dag.

„Það hefðu mátt vera fleiri svona dagar í júní,“ segir Snorri. Gott veður geri mikið fyrir stemninguna hjá fólkinu í bænum. „Það lifnar miklu meira yfir fólkinu þegar sólin kemur.“
Snorri svarar því játandi þegar hann er spurður hvort það sé mikill munur á veltunni á dögum sem þessu,
„Það náttúrulega munar að geta bætt við hátt í fimmtíu borðum sem eru full allan daginn.“
