Viðskipti innlent

Kaupa um tvö­falt meira af lyfjum, heilsu- og snyrti­vörum er­lendis

Eiður Þór Árnason skrifar
Netverslun færist sífellt í aukanna hjá íslenskum neytendum.
Netverslun færist sífellt í aukanna hjá íslenskum neytendum. EPA/FREDDY CHAN

Íslendingar versluðu í erlendum netverslunum fyrir 2,6 milljarða króna í maímánuði sem nemur 31,4% aukningu milli ára. Tæplega helmingur af innkaupunum eða rúmlega 1,2 milljarðar króna voru verslaðar í erlendum fataverslunum á netinu.

Þetta sýna tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) sem byggja á gögnum frá Tollsviði Skattsins. Fram kemur í tilkynningu frá RSV að kaup Íslendinga í flokknum lyf, heilsu- og snyrtivörur hafi jafnframt stóraukist í maí eða um 90,6% milli ára. Þá hafa áfengiskaup erlendis frá dregist saman um 14,6% milli ára samhliða auknu framboði áfengis í innlendum netverslunum.

Rólegra í apríl

Erlend netverslun dróst saman um 13,2% milli mars og apríl 2023 en síðan mælingar RSV hófust hafa Íslendingar eytt minnst þar í þessum tveimur mánuðum. Í apríl 2022 eyddu Íslendingar 1,48 milljarði króna í erlendum netverslunum en í apríl 1,72 milljarði króna. Í apríl var 77,4% aukning á milli ára í kaupum erlendis frá á lyfja-, heilsu- og snyrtivörum.

Gögnin eru unnin upp úr upplýsingum frá innlendum tollmiðlurum, Íslandspósti og öðrum fyrirtækjum sem vitað er til að flytji inn pantanir einstaklinga frá erlendum netverslunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×