Tveir voru handteknir vegna þjófnaðar í tveimur aðskildum málum en annar reyndist hafa fíkniefni í fórum sínum. Hinn var staðinn að hnupli í verslun og skilaði varningnum þegar lögreglu bar að.
Einum var vísað úr verslun af lögreglu eftir að hafa neitað að gera það að beiðni starfsmanna.
Lögregla sinnti einnig útkalli vegna átaka í heimahúsi í miðborginni. Einn var kærður fyrir líkamsárás og eignaspjöll og tveir fyrir þjófnað. Allir voru látnir lausir að lokinni skýrslutöku.
Þá barst tilkynning um slagsmál í miðborginni, sem reyndust minniháttar en annar þátttakenda var kærður fyrir vopnalagabrot.
Lögregla var einnig kölluð til þar sem tveir menn voru sagðir hafa ruðst inn í íbúð og ógnað húsráðanda. Þeir voru á brott þegar lögregla mætti á staðinn en eru grunaðir um líkamsárás og eignaspjöll.
Einn var í aðskildu tilviki vistaður í fangageymslu vegna húsbrots og annarlegs ástands. Var þetta önnur nóttin í röð þar sem hann kom við sögu lögreglu.
Í umdæminu Grafarvogur/Árbær/Mosfellsbær var einn vistaður vegna rannsóknar á heimilisofbeldi.