Þetta er ekki í fyrsta sinn sem United freista þess að fá Rabiot til liðs við sig en síðasta sumar hafði liðið náð samkomulagi við Juventus um kaupverð en félagaskiptin strönduðu á launakröfum leikmannsins. Í kjölfarið beindu United menn sjónum sínum að Casemiro, sem þá var leikmaður Real Madrid, og nældu að lokum í hann.
Launakröfur Rabiot síðasta sumar þóttu algjörlega galnar en nú er talið að United hafi boðið honum 200.000 pund á viku, sem myndi gera hann að 7. launahæsta leikmanni félagsins, ásamt Rashford og Antony.
Ekki fylgir sögunni hvernig þetta tilboð stenst samanburð við tilboðið síðan í fyrra, en sú staðreynd að United spila í Meistaradeild Evrópu næsta vetur er sögð vera afar lokkandi fyrir Rabiot. Ekkert er þó fast í hendi enn og Juventus vonast til að leikmaðurinn skrifi undir framlengingu á samningi sínum á næstu dögum.