Mbl.is greindi frá fréttum af starfslokum Hannesar.
Helsta ástæðan fyrir ákvörðun Hannesar ku vera annríki við fasteignasölu. Hann átti að taka við sem forseti bæjarstjórnar um miðjan júlí en taldi sig ekki geta sinnt því eins vel og þyrfti.
„Vegna anna finn ég að maður getur ekki beitt sér alveg eins vel í þágu Kópavogsbúa eins og maður vill,“ sagði Hannes í samtali við mbl.is.
„Það þarf að hafa báðar hendur á stýri á fasteignamarkaði í þessu ástandi,“ sagði hann einnig.
Elísabet Berglind Sveinsdóttir, markaðsstjóri sem sat í fimmta sæti Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, mun taka við sæti Hannesar í bæjarstjórn.
Nýbúinn að selja sig út úr fasteignasölunni
Fréttirnar koma stuttu eftir að greint var frá því að búið væri að kaupa hlut Hannesar í Lind fasteignasölu, sem hann stofnaði sjálfu árið 2015 á grunni Remax Lindar.
Stærstu hluthafar fasteignasölunnar RE/Max, þeir Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Arnar Sævarsson undir formerkjum fjárfestingarfélagsins IREF, keyptu hlut Hannesar í fasteignasölunni Lind.
Í samtali við mbl.is sagði hann um vistaskiptin: „Fyrst og fremst er ég gríðarlega stoltur og þakklátur Kópavogsbúum fyrir að hafa fengið tækifæri að vera í bæjarstjórn og vil ég þakka þeim það sérstaklega.“
Þá sagðist hann að lokum ekki vera hættur í pólitík þó hann væri hættur í bæjarstjórn.
Vera Hannesar í bæjarstjórn hefur ekki gengið slysalaust fyrir sig en í ágúst á síðasta ári birti hann færslu á Facebook þar sem hann greindi frá glímu sinni við alkóhólisma og vandræðagangi á öldurhúsi í Svíþjóð. Í kjölfarið flaug hann aftur til Íslands og leitaði sér hjálpar hjá Tólf spora samtökunum.