Greint var frá uppgjöri Loftslagsráðs sem senn lýkur fjögurra ára skipunartíma sínum í gær. Þar lagði ráðið mat á þann árangur sem hefur og hefur ekki náðst í loftslagsmálum síðustu fjögur ár. Í uppgjörinu kemur meðal annars fram að verði ekki gripið í taumana strax muni Ísland ekki ná að uppfylla þær skuldbindingar um samdrátt fyrir 2030 sem það hefur undirgengist sameiginlega með bandalagsríkjum. Auk þess að færast enn fjær markmiðinu um kolefnishlutleysi 2040.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra sagði í hádegisfréttum okkar í gær það vera útilokað að Ísland nái markmiðum á tilsettum tíma án grænnar orku. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sem situr í Loftslagsráði, segir ráðherra ekki draga réttar ályktanir.
„Loftslagsráð bendir á það að aukning í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi einkum frá samgöngum er alltof, alltof mikil og við því þarf að bregðast. Eins og sakir standa þá þarf ekki að byggja virkjanir til þess arna það er miklu skynsamara að fækka bílum sem brenna bensíni og olíu,“ segir Árni. Stjórnvöld hafi ekki gert nærri nógu mikið til að minnka umferð bíla sem losi gróðurhúsalofttegundir, bensín og dísel, og þar liggi vandamálið.
„Vandinn sem umhverfisráðherra þarf að glíma við er að losun minnki umtalsvert. Hún er að aukast, ég held að þetta sé þriðja árið í röð sem losun mun aukast vegna þess að við sjáum það að innflutningur á olíu og bensíni eykst,“ segir Árni jafnframt.
Aðspurður hvort stjórnvöld hafi brugðist í málaflokknum svarar Árni játandi. „Já það verður að segjast. Ég er ekki að tala um Guðlaug Þór eingöngu. Ég er að tala um loftslagsstefnu Íslands frá aldamótum, hún hefur verið í molum alla tíð.“ Miðað við þróunina segist Árni ekki bjartsýnn á að Ísland nái markmiðum sínum á tilsettum tíma.