Fótbolti

Chelsea og Manchester City komast að samkomulagi um Kovacic

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mateo Kovacic er á leið til Manchester City.
Mateo Kovacic er á leið til Manchester City. Warren Little/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City hafa samþykkt að greiða Chelsea allt að 30 milljónir punda fyrir króatíska miðjumanninn Mateo Kovacic.

Meistararnir greiða 25 milljónir punda fyrir leikmanninn, en fimm milljónir geta bæst við kaupverðið í gegnum árangurstengdar bónusgreiðslur. Kaupverðið er því um 4,3 milljarðar króna, en gæti farið upp í 5,2 milljarða.

Kovacic er 29 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið með Chelsea frá árinu 2018, fyrsta árið á láni frá Real Madrid. Hann var hjá Madrídingum í fjögur ár, en þar á undan lék hann með Inter Milan og Dinamo Zagreb.

Eftir eyðslufyllerí síðustu félagsskiptaglugga er nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, Mauricio Pochettino, heldur betur farinn að taka til í leikmannahóp liðsins. Ásamt Kovacic eru í það minnsta fjórir aðrir leikmenn á förum frá félaginu, en grein var frá því hér á Vísi fyrr í dag að N'Golo Kante, Edouard Mendy, Hakim Ziyech og Kalidou Koulibaly væru allir á leið til Sádi-Arabíu.

Þá er talið að þeir Pier­re-Emerick Auba­meyang og Call­um Hudson-Odoi séu einnig á leið frá Lundúnaliðinu í sandinn í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×