Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti þetta í samtali við Vísi
Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Grímur segir að gæsluvarðhald yfir sakborningunum þremur hafi verið framlengt þann 15. júní um fjórar vikur fram til 13. júlí til að hægt væri að klára málið.
„Við erum á lokametrunum, þetta eru síðustu fjórar vikurnar sem um ræðir sem viðkomandi mundu sitja í gæsluvarðhaldi án þess að það væri gefin út ákæra,“ sagði hann en samkvæmt lögum þarf að gefa út ákæru innan tólf vikna frá því viðkomandi var handtekinn.
Málið fari til saksóknara á næstunni
„Við erum bara að klára þessa rannsókn og hún fer yfir til héraðssaksóknara fljótlega,“ sagði Grímur.
„Þegar um manndrápsmál er að ræða er kannski búið að upplýsa um stóran hluta en það er svo margt sem þarf að bíða eftir, gögn og rannsóknir að utan og þess háttar. Þetta er alls ekki rúmur tími,“ sagði hann aðspurður út í það hvort tólf vikna gæsluvarðhald væri alltaf fullnýtt í málum sem þessum.
Eru það þá lífssýni sem þið bíðið eftir?
„Það er meðal annars að bíða eftir rannsóknum en það er nokkrir hnútar sem á eftir að hnýta,“ sagði Grímur.
„Ég reikna með því að á næstu tveimur vikum verði málið farið frá okkur. Ákærendur þurfa líka sinn tíma til að fara yfir málið,“ sagði hann að lokum.