Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfðuborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.
Hann segir lögreglu hafa komið að vettvanginum, sem enn sé innsiglaður, á sjötta tímanum í morgun. Þar hafi maður fundist látinn utandyra. Tveir menn hafi verið handteknir á vettvangi. Annar utandyra en hinn inni í nálægu húsi.
Að öðru leyti sagðist Grímur ekki geta tjáð sig og vísaði til þess að von væri á yfirlýsingu frá lögreglunni innan skamms.
Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að maðurinn, sem var á fimmtugsaldri, hafi látist í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði í nótt. Lögreglu hafi borist tilynning um málið á sjötta tímanum og haldið þegar á vettvang.
„Hinn látni var meðvitundarlaus utandyra þegar að var komið. Reynt var að endurlífga manninn en það bar ekki árangur. Í kjölfarið voru tveir karlar handteknir í tengslum við málið, annar í húsi við vettvanginn og hinn þar nærri. Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt veitta frekar upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að lögregla muni senda frá sér frekari upplýsingar eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.
Fréttin hefur verið uppfærð.